Fyrst var hann rekinn fyrir að gagnrýna Pútín og félaga og nú er búið að bæta fangelsisdómi við.
Dómurinn sýnir almennan vanda í Rússlandi og í rússneska hernum en málið hefur einnig kveikt ákveðna bylgju óhlýðni.
Allt hófst þetta fyrir tveimur árum þegar Yevgeny Prigozhin, leiðtogi Wagnerhópsins gerði skammvinna uppreisn gegn Pútín. Hann lét málaliða sína umkringja bæinn Rostov-on-Don og lagði af stað til Moskvu með málaliða sína. Markmiðið var að bola Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, og Valery Gerasimov, yfirmanni hersins, úr starfi.
Uppreisn hans blés í glæður óánægju sem hafði kraumað lengi annars staðar í rússneska hernum. Einn þeirra sem lét heyra í sér var fyrrnefndur Popov sem gagnrýndi stjórnvöld og yfirstjórn hersins.
Hann var rekinn úr starfi fyrir vikið og skýrði mönnum sínum frá þessu í ræðu og sagði að yfirmönnum hans hafi fundist gagnrýni hans vera ógn af hans hálfu og hafi á aðeins einum degi, með aðstoð varnarmálaráðherrans, náð að brugga honum launráð og hafi þannig ýtt honum til hliðar.
Það jók á vandræði hans að ræðan var tekin upp og deilt og varð það til þess að hann var síðar handtekinn.
Popov var vinsæll herforingi og tilheyrði hægri væng stjórnmálanna, á sama stað og Pútín og Alexander Dugin, einn helsti hugmyndafræðingur Pútíns. Hann hafði einnig getið sér gott orð sem herforingi.
En þetta kom ekki í veg fyrir að hann væri rekinn úr starfi. Brottreksturinn var gagnrýndur en það bjargaði honum ekki frá því að vera dæmdur í fimm ára þrælkunarvinnu nýlega.
New York Times segir að hann hafi einnig verið dæmdur til að greiða sekt. Glæpur hans er sagður hafa verið að hafa stolið málmi sem átti að nota við smíði varnarvirkja.
Popov er sagður íhuga að áfrýja dómnum.
Tengsl gagnrýni Popov og spillingarákærunnar hafa ekki farið framhjá rússneskum herbloggurum en þeir hafa verið ansi hljóðir um hríð.
Eins og margir muna, þá endaði ferð Prigozhin til Moskvu með því að hann samdi við Pútín. En skömmu síðar lést hann þegar flugvél hans hrapaði. Margir af leiðtogum Wagnerhópsins voru með í vélinni.
Ákveðnar grunsemdir, ef ekki algjör vissa, er meðal margra utan veggja Kreml, þar á meðal meðal herbloggarana, um að vélinni hafi verið grandað að undirlagi Pútíns. Þetta hræddi marga herbloggara til þagnar og hættu þeir að gagnrýna frammistöðu hersins og Pútín.
En nú þegar Popov hefur verið fangelsaður hefur gagnrýnin blossað upp á nýjan leik.
Juri Podoljak, herbloggari, skrifaði nýlega að dómsniðurstaðan hafi verið pöntuð og sé hefnd veiks manns. Þetta hafi verið viðbúið. Hann er vinsælasti rússneski herbloggarinn með rúmlega þrjár milljónir fylgjenda. Það er því tekið eftir því sem hann skrifar.