fbpx
Fimmtudagur 06.nóvember 2025
Fréttir

Innlagnir sjúklinga í mikilli offitu eyðilögðu útboð

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 6. nóvember 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd útboðsmála hefur ógilt útboð Landspítalans vegna kaupa á gjörgæslurúmum. Hafði Öryggismiðstöðin kært útboðið á þeim grundvelli að skilyrði um að hámarksþyngd notenda rúmanna væri 200 kíló útilokaði fyrirtækið frá útboðinu. Vísaði fyrirtækið einnig til þess að í sambærilegu útboði spítalans nokkrum mánuðum áður hefðu skilyrði um hámarksþyngd notenda verið 185 kíló. Rökstuddi spítalinn þessa breytingu með því að nokkur fjöldi sjúklinga sem væri þyngri en 185 kíló hefði þurft að leggjast inn á gjörgeisludeildina.

Útboðið var bæði vegna gjörgæsludeildar Landspítalans en einnig gjörgæsludeildar sjúkrahússins á Akureyri. Vildi Öryggismiðstöðin meðal annars meina að hin breyttu skilyrði væru ekki í samræmi við evrópska staðla og reglur. Sagði fyrirtækið að aðeins einn söluaðili á Íslandi gæti uppfyllt skilyrði um gjörgæslurúm sem gætu borið einstaklinga sem væru þyngri en 200 kíló.

Vísaði Öryggismiðstöðin til útboðs Landspítalans vegna gjörgæslurúma á síðasta ári þar sem skilyrði voru um 185 kílóa hámarksþyngd sjúklinga og að ljóst væri að miðað við niðurstöður þess útboðs væri aðeins eitt fyrirtæki á Íslandi, Icepharma, sem uppfyllt gæti hin hertu skilyrði en gjörgæslurúm sem væru í notkun í dag á spítalanum væru frá því fyrirtæki. Nýja útboðið væri órjúfanlegur hluti fyrri útboðsins þar sem í því fyrrnefnda hefði öllum tilboðum verið hafnað en í það skipti hefði spítalinn getað séð hvað bjóðendur byðu upp á og því með réttu átt að hafa takmarkað svigrúm til að breyta kröfum fyrir seinna útboðið enda byði það upp á mismunun.

Vildi Öryggismiðstöðin í ljósi þessa meina að ekki hefði verið gætt jafnræðis í útboðinu. Kröfum um rúmin hafi verið breytt án nokkurs rökstuðnings og að fyrirtækið réði ekki við hin nýju lágmarksskilyrði. Engin fordæmi væri fyrir kröfum um 200 kílóa hámarksþyngd sjúklinga og í nágrannaríkjunum væri miðað við 185 kíló fyrir gjörgæslurúm.

Of fáir of þungir

Landspítalinn rökstuddi breytingarnar einkum með því að það væru dæmi um að sjúklingar sem væru þyngri en 185 kíló hefðu verið lagðir inn á gjörgæsludeildina. Öryggismiðstöðin taldi þá hins vegar of fáa til að réttlæta hinar hertu kröfur um hámarksþyngd sjúklinga. Um væri að ræða níu sjúklinga frá 2021 og fram í apríl 2025 en þar af hefðu sex verið yfir 200 kíló að þyngd og myndu því eiga erfitt með að nýta rúm sem stæðust nýju kröfurnar.

Vildi fyrirtækið meina að Landspítalinn hefði ekki rökstutt með neinum hætti hvernig þessi tölfræði styddi málatilbúnað hans.

Spítalinn sagði í sínum andsvörum hinar breyttu kröfur einkum stafa af ábendingum frá starfsfólki gjörgæsludeildarinnar um að hámarksþyngd gjörgæslurúmanna væri of lág. Væru breytingarnar réttlætanlegar og málefnalegar með tilliti til þarfa gjörgæsludeildarinnar. Það væri heimilt samkvæmt lögum að takmarka samkeppni í útboðum með einstaka kröfum að svo miklu leyti sem þær teljist eðlilegar, málefnalegar og sanngjarnar. Almennt verði að veita kaupanda í útboði töluvert svigrúm til að ákvarða og skilgreina þau viðmið og gæði sem vara eða þjónusta þurfi að uppfylla til þess að koma til greina við val.

Landspítalinn andmælti því að aðeins söluaðili hafi getað uppfyllt hinar hertu kröfur og hafnaði því alfarið að með þessum breytingum hefði verið brotið gegn jafnræði bjóðenda.

Öryggi og minnisblað

Spítalinn hafnaði því einnig að krafa um að rúm geti borið 200 kílóa sjúkling sé á einhvern hátt ómálefnaleg eða takmarki samkeppni með óeðlilegum hætti. Starfsmenn hans væru æ oftar að fást við sjúklinga í yfirþyngd, umfram 185 kíló, og því geti breyttar kröfur varla talist ómálefnalegar, hvað þá andstæðar innkaupareglum. Sagði Spítalinn að hinar hertu kröfur hafi einungis snúist um öryggi sjúklinga og starfsmanna.

Í niðurstöðu kærunefndar útboðsmála er vísað til minnisblaðs Landspítalans frá í apríl 2025 sem lagðar voru fram til að færa rök fyrir hinum breyttu kröfum. Þar kemur fram að á árinu 2021 voru tvær innlagnir sjúklinga sem voru 185 til 200 kíló og þrír sjúklingar voru yfir 200 kíló. Á árinu 2022 var enginn sjúklingur lagður inn sem var yfir 185 kíló. Á árinu 2023 voru skráðar fjórar innlagnir sjúklinga á bilinu 185 til 200 kíló og einn sjúklingur var yfir 200 kíló. Á árinu 2024 var einn sjúklingur 185 kíló og einn sjúklingur 200 kíló. Það sem af var árinu 2025 hafði einn sjúklingur verið yfir 200 kíló að þyngd.

Nefndin segir að kaupendum í opinberum innkaupum sé falið að ákveða hverju sinni hvernig þarfir þeirra verði best uppfylltar og hvaða eiginleikum boðin þjónusta, verk eða vara skuli búa yfir í því skyni. Tilgreining þessara eiginleika í útboðsgögnum verði þó að byggja á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem gæta verði meginreglna um jafnræði, meðalhóf og gagnsæi. Nefndin segir enn fremur að kaupendur séu ekki bundnir af sömu valforsendum eða eftir atvikum sömu skilmálum í síðari útboðum á vöru eða þjónustu sem hefur áður verið boðin út. Hins vegar verði í þessu tilfelli að gera þá kröfu að Landspítalinn styðji þær auknu kröfur sem gerðar séu til burðargetu gjörgæslurúma fullnægjandi gögnum. Að mati nefndarinnar verði ekki nægjanlega ráðið af minnisblaðinu einu og sér að málefnalegt hafi verið að auka við kröfur um þyngdarmörk gjörgæslurúma milli útboðanna. Spítalinn hafi heldur ekki skýrt af hverju hann noti ekki svokölluð „bariatric“ gjörgæslurúm í þeim einstöku tilvikum þar sem sjúklingar séu í mikilli yfirþyngd en þau rúm þoli mikla þyngd og séu breiðari en hefðbundin gjörgæslurúm.

Á grundvelli þess að fullnægjandi gögn og rök fyrir því að breyta kröfum um hámarksþyngd sjúklinga milli útboðanna tveggja hafi skort er þetta seinna útboð fellt úr gildi. Nefndin varð hins vegar ekki við þeirri kröfu Öryggismiðstöðvarinnar að mæla fyrir að útboðið yrði auglýst upp á nýtt þar sem það sé Landspítalans að ákveða það.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

„Við sigldum í burtu, en fórum aldrei frá Flateyri“

„Við sigldum í burtu, en fórum aldrei frá Flateyri“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

„Þetta var svona eins og Jesúbarnið“

„Þetta var svona eins og Jesúbarnið“
Fréttir
Í gær

Gestur áhyggjufullur: Gæti reynst ástvinum hreinasta martröð

Gestur áhyggjufullur: Gæti reynst ástvinum hreinasta martröð
Fréttir
Í gær

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Borðvél sem þýðir bók á örfáum sekúndum

Borðvél sem þýðir bók á örfáum sekúndum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Organista Glerárkirkju sagt upp störfum – „Ég var þrjóskur miðaldra karlmaður“

Organista Glerárkirkju sagt upp störfum – „Ég var þrjóskur miðaldra karlmaður“