Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, telur niðurrif Morgunblaðshússins í Kringlunni til marks um stuttan notkunartíma húsa og sóun. Steinsteypa losi mikinn koltvísýring.
Verið er að rífa húsið sem hýsti Morgunblaðið á árunum 1993 til 2006. Það stendur við Kringluna 1 en á reitnum hyggst fasteignafélagið Reitir reisa 420 íbúða byggð.
Einar bendir hins vegar á að þetta hús sé ekki mjög gamalt og þetta sé ekki eina dæmið um niðurrif nýlegri húsa á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er verið að rífa steinsteypt hús nokkuð víða í bænum. Við Borgartún eitt sem hýsti lengi ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar ofl., byggt um 1975. Eins fyrir nokkru húsalengju við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, kennda við Músík og Sport. Hún einnig frá því um 1975. Þar er meira niðurrif fyrirhugað,“ segir Einar í færslu á samfélagsmiðlum.
Bendir hann á að 50 ára endingartími húsa sé ekki langur. Morgunblaðshúsið, sem nú er verið að rífa, er mun yngra en það. Tekið í notkun árið 1993.
„Er það bara ég, eða eru fleiri um þá skoðun að þetta sé ákveðin tegund sóunar?“ spyr hann og bendir á umhverfisáhrifin. „Steinsteypa losar mikinn koltvísýring. Hana má þó réttlæta m.a. með fjölbreyttri notkun og löngum endingartíma.“
Enn fremur bendir Einar á að Vífilsstaðaspítali hafi verið byggður um árið 1910. Flest stóru steinsteyptu húsin í Vesturbæ Reykjavíkur og Þingholtunum séu yfir 100 ára gömul.
„Engum dettur í hug að jafna þau við jörðu, enda vel við haldið af eigendum sínum. Voru líka byggð á sínum tíma til að standa lengi ekki satt?“ segir hann að lokum.