Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur verið lokað á hinum vinsæla veitingastað og bjórgerð Bryggjan brugghús. Engin starfsemi er í húsnæðinu, ekki er svarað í síma, vefsíða staðarins liggur niðri og Facebook-síða staðarins hefur verið tekin niður.
Í fyrirtækjaskrá Skattsins er skráður eigandi Róbert Ísak Þorsteinsson en hann er aðeins tvítugur að aldri. DV hefur ekki tekist að ná í Róbert Ísak.
Ábyrgðarmaður veitingaleyfis staðarins er skráður hjá sýslumanni Jóel Salómón Hjálmarsson. Hann seldi hins vegar hlut sinn í fyrirtækinu sumarið 2023 og hefur engin afskipti haft af því síðan.
Ábyrgðarmaður lénsins bryggjanbrugghus.is heitir Hjörvar en segist ekki hafa afskipti af félaginu. Hann sagðist í símtali við DV geta veitt nánari upplýsingar síðar.
Í Facebook-hópnum Matartips lýsa nokkrir eigendur gjafabréfa staðarins yfir áhyggjum sínum. Svo virðist sem þeir þurfi að gera kröfu í væntanlegt þrotabú til að fá gjafabréfin endurgreidd.
Í umræðu í Facebook-hópnum Mæðratips er því haldið fram að staðurinn hafi verið tæmdur af tækjum í gær.
Fréttinni hefur verið breytt.