David Frum, aðalristjóri tímaritsins The Atlantic og fyrrverandi ræðuhöfundur Bandaríkjaforsetans George W. Bush, nefnir það sem hugsanlegt markmið fyrir Trump og Bandaríkjamenn að hernema Ísland í framtíðinni.
Frum, sem er einna þekktastur fyrir að hafa skapað frasann „Öxulveldi hins illa“ árið 2002, var í viðtali hjá kanadísku Youtube-rásinni The Hub og ræddi þar um stöðuna í heimsmálunum og einkum stöðu Bandaríkjanna undir Trump. Það er að Bandaríkin væru að afsala sér forystu í heiminum til Kínverja og Indverja og að asíska öldin væri að hefjast.
Sagði Frum að Bandaríkin undir stjórn Trump væru svartsýn að eðlisfari, kjósendur hans væri fólk sem hefði orðið undir í samkeppni og vildi einangra Bandaríkin. Í stað heims þar sem Bandaríkin færu með forystu þá væri heimurinn svæðisbundnari og Bandaríkin myndu reyna að treysta nærumhverfi sitt betur. Það sýndu hótanir Trump í garð Kanada, Grænlands og Panama sem dæmi.
„Þetta er eins og í borðspilinu Risk. Þú lokar svæðinu í Mið-Ameríku. Þú tekur Grænland og kannski þarftu Ísland líka. En þú getur ekki náð Kamtjatka en þú ert með Alaska og þú innsiglar Norður-Ameríku,“ sagði Frum. „Þetta er MAGA-sýnin. Gera virki úr Norður-Ameríku en láta restina af heiminum sjá um sig.“