Luhn hugðist ganga á jökul í Folgefonna-þjóðgarðinum í Vestur-Noregi og lagði hann af stað frá bænum Odda þann 31. júlí síðastliðinn.
Hann skilaði sér ekki í flug til Lundúna á mánudag og tilkynnti eiginkona hans, Veronika Silchenko, hvarf hans til norskra yfirvalda í kjölfarið.
Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur fram að leitarhópar hafi verið ræstir út en vegna erfiðra veðurskilyrða hafi ekki reynst unnt að leita með þyrlu enn sem komið er. Hafa sporhundar og drónar verið notaðir við leitina.
Luhn, sem er 38 ára, hefur látið sig málefni norðurslóða varða í umfjöllunum sínum en hann hefur meðal annars starfað fyrir BBC, National Geographic, The New York Times og CBS á ferli sínum.
Eiginkona hans, Silchenko, segir að hann sé heltekinn af norðurslóðum og mjög vanur útivistarmaður. Þannig hafi hann áður dvalið á jöklum við erfiðar aðstæður dögum saman.