Tveir meintir rússneskir launmorðingjar, karl og kona, voru skotnir til bana af SBU, öryggisþjónustu Úkraínu, eftir að hafa reynt að verjast handtöku í morgun. Samkvæmt yfirlýsingu frá yfirmanni SBU, Vasyl Malyuk, var fólkið sagt bera ábyrgð á morði Ivan Voronych, fimmtugs háttsetts úkraínsks njósnara, sem var skotinn fimm sinnum með hljóðdeyfi í miðri íbúðargötu í Kænugarði fyrir helgi.
Síðan þá hefur staðið yfir víðtæk leit að ódæðismönnunum og segir Malyuk í yfirlýsingunni að hann hafi sjálfur stýrt þeim aðgerðum. Fullyrðir hann að launmorðingjarnir tveir hafi komið sérstaklega til Úkraínu á vegum FSB, rússnesku leyniþjónustunnar. Þau hafi fylgst náið með ferðum Voronych og síðan látið til skarar skríða þennan örlagaríka dag.
Sjá einnig: Háttsettur njósnari skotinn til bana í Kiev um hábjartan dag
Konan var nafngreind sem Narmin Guliyeva, 34 ára, en maðurinn hefur ekki verið formlega nafngreindur opinberlega, þó mynd af honum hafi birst.
Hinn látni Voronych var háttsettur njósnari Úkraínumanna og er talinn hafa stjórnað leynilegum aðgerðum innan Rússlands og gert þarlendum yfirvöldum ýmsar skráveifur. Ekki hafa birst myndir af honum eftir dauða hans, sem sagt er gefa til kynna hversu leynilegar aðgerðir hans voru.
„Það eru aðeins ein örlög sem bíða óvinarins á yfirráðarsvæði Úkraínu – og það er dauðinn,“ sagði Malyuk harðorður í áðurnefndri yfirlýsingu.