Maður á fertugsaldri sogaðist inn í þotuhreyfil á flugvellinum í Mílanó á Ítalíu. Miklar raskanir og tafir á flugi urðu á vellinum vegna slyssins.
Maðurinn, sem var 35 ára gamall, komst í gegnum öryggisgæslu og hljóp inn á flugbrautina á Milan-Bergamo flugvellinum um klukkan 10:00 í dag. Var hann eltur af lögreglu en þá endaði hann fyrir framan þotuhreyfil sem var í gangi og sogaðist inn í hann.
Ekki er vitað hvað manninum gekk til með að brjótast inn á flugbrautina en ekki er útilokað að hann hafi ætlað að enda sitt líf.
Samkvæmt blaðinu Il Corriere della Sera var maðurinn var hvorki farþegi í flugi né starfsmaður á flugvellinum. Hann hafði lagt bílnum sínum utan við flugbrautina og náði að komast í gegnum öryggishurð við þann stað þar sem farangur er ferjaður út og inn á flugbrautina. Rannsókn stendur yfir hvernig maðurinn náði að komast fram hjá öryggisgæslunni.
Alls var 19 flugferðum aflýst vegna slyssins. 12 frá og 7 til Mílanó. Flug byrjaði aftur um hádegið en miklar tafir urðu á flugferðum í allan dag.