Hart var tekist á um hinn svokallaða Fannborgarreit í Kópavogi á fundi bæjarráðs í gær þegar lagt var fram til samþykktar uppfært uppbyggingarsamkomulag. Minnihlutinn sakar meirihlutann um upplýsingaóreiðu og segja íbúa á svæðinu ekki hafa fengið neinar upplýsingar í sjö ár.
Fannborgarmálið hefur verið mikið hitamál síðan Kópavogsbær seldi eignir í Fannborg 2, 4 og 6 til félagsins Árkórs árið 2017. Málið var eitt af helstu ástæðum þess að bæjarmálafélagið Vinir Kópavogs var sett á laggirnar.
Kópavogsbær hefur síðan greitt Árkór himinháa leigu í þeim húsum sem nýtt eru, meðal annars fyrir áfangaheimili fyrir fólk í vímuefnaneyslu og dagvistun fyrir skólabörn.
Á fundinum í morgun var uppfært samkomulag á Fannborgarreitnum samþykkt en hafnað tillögu minnihluta um frestun málsins.
„Undirrituð harma að íbúar hafi ekki fengið að koma fyrr að ferlinu og leggjum enn og aftur til að settur verði á laggirnar „samráðsvettvangur“ eða nokkurs konar „miðbæjarráð“ sem vinna mun samhliða framkvæmdunum ef og þegar þær hefjast. Þar munu eiga sæti fulltrúar frá Kópavogsbæ, lóðarrétthafa, íbúar úr Fannborg og Hamraborg auk sérfræðinga sem myndu hafa verkstjórn í ferlinu,“ segir í bókun minnihluta Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vina Kópavogs.
Á meðal þess sem minnihlutinn telur óljóst og óskýrt er aðgengi fatlaðra að bílastæðum. Á Norðurlöndum sé miðað við 25 metra en í skipulaginu líti út fyrir að hreyfihamlaðir gætu þurft að fara að minnsta kosti 240 metra leið að bílastæði.
Lét Hákon Gunnarsson, fulltrúi Samfylkingar, einnig bóka að íbúar í Fannborg 3 til 9 hafi greitt fyrir 36 bílastæði frá árinu 1981. Ekkert samtal hafi farið fram við þessa íbúa. „Þau eru tekin af þeim einhliða af aðilum samkomulagsins,“ segir Hákon.
„Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa ekki veitt neinar upplýsingar til íbúa síðustu sjö ár og alls ekkert samráð átt sér stað. Það er ekki til meiri upplýsingaóreiða en að veita engar upplýsingar,“ segir í bókun minnihlutans. „Það er enginn ágreiningur um mikilvægi uppbyggingar í miðbæ Kópavogs heldur mikilvægi þess að íbúar fái aðkomu að ákvarðanatöku sem og upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar eru. Nýta hefði mátt síðustu sjö ár mun betur við heildaruppbyggingu í miðbænum.“
Meirihlutinn sagði hins vegar á fundinum að hið nýja skipulag væri skýrara og ítarlegra en það fyrra og til hagsbóta fyrir bæði sveitarfélagið og íbúa. Er því hafnað að undirritun sé ótímabær og að vandað hafi verið til verka á fjölmörgum stjórnsýslustigum.
„Ljóst er að mikil þörf er á að endurnýja og þróa miðbæ Kópavogs og skapa þar vistvænt, lifandi og aðlaðandi umhverfi með blöndu íbúða og þjónustu,“ segir í bókun meirihlutans og tiltekið er að samskiptavettvangur fyrir íbúa sé í samkomulaginu. Upplýsingafundir hafi verið og verði áfram haldnir fyrir hvern fasa á framkvæmdatímanum.
„Varðandi aðgengismál hreyfihamlaðra tekur meirihlutinn þá gagnrýni alvarlega. Skýrt hefur komið fram að byggingarleyfi verða ekki veitt nema fyrir liggi fullnægjandi og lögbundnar lausnir sem tryggja aðgengi allra, þar með talið þeirra sem reiða sig á stuttar leiðir frá bílastæðum að inngöngum. Meirihlutinn leggur áherslu á að allar framkvæmdir taki mið af byggingarreglugerð og þeim kröfum sem þar eru gerðar,“ segir meirihlutinn.