Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Einmitt ræðir Einar Bárðarson við hjónin, Sonju Magnúsdóttur og Svavar Jóhannsson, fósturforeldra Oscars Florez, 17 ára drengs frá Kólumbíu, sem íslensk yfirvöld hyggjast vísa úr landi í byrjun júní.
Í þættinum fara Sonja og Svavar yfir þann tíma sem Oscar hefur verið í þeirra lífi. Alveg frá því að hann fór að koma inn á heimilið sem vinur barnanna þeirra, frá þeim degi sem hann fór að búa hjá þeim, brottvísunina og til dagsins í dag. Svavar og Sonja ræða og vonir þeirra fyrir betra líf fyrir Oscar Florez.
Í þættinum þræða þau Svavar og Sonja öll þeirra viðkynni af Oscari alveg frá því að hann gerðist heimagangur á heimili þeirra, í gegnum börnin þeirra sem eru jafnaldrar Oscars, árið 2022. Smátt og smátt fór Oscar að dvelja lengur og lengur hjá þeim. Borðaði hjá þeim og svaf jafnvel yfir miðjan daginn þannig að þeim varð fljótlega ljóst að ekki var allt með felldu á milli Oscars og föður hans og aðstæður á hóteli hælisleitenda væru líklega ekki eins og þær ættu að vera.
Það verður vendipuntkur í málinu þegar faðir Oscars lemur hann fyrir framan starfsfólk og aðra gesti á hóteli fyrir hælisleitendur árið 2023. Þá er kölluð til lögregla, barnavernd og Útlendingastofnun og Sonja og Svavar beðin að taka drenginn með sér heim. Síðan bjó hann hjá þeim í ástríku og öruggu umhverfi þangað til í október á síðasta ári þegar hann var dreginn út úr Flensborgarskóla í handjárnum af fjórum lögreglumönnum og fluttur sama dag úr landi.
Í þættinum segir Svavar líka frá því þegar hann flaug til Bogotá til að bjarga Oscari aftur til Íslands, eftir að hann var fyrst sendur úr landi og skilinn eftir einn og hjálparvana. Núna stefnir í að Oscar verði vísað úr landi í annað sinn, nú án föður síns, en líka án foreldra, framtíðar og verndar. Útlendingayfirvöld hafa hafnað beiðni hans um vernd þrátt fyrir að hann sé fylgdarlaust barn, með enga örugga aðstöðu í heimalandi sínu.
Einar spyr þau beinum orðum að því hvað í veröldinni fái þau í að standa í þessu. Foreldrar fimm barna með sex barnabörn og komin á rólegri hluta ævinnar.
„Við getum ekki annað,” segja þau og útskýra hvernig þau bara eiga ekki annað í hjarta sér en að forða drengnum frá því sem bíður hans í Bogota.
„Það er fullt af fólki sem getur ekki þetta verkefni okkar. Við höfum alveg fengið að heyra það. Hvað við séum að atast í þessu,” segja þau og bæta við að „fullt af okkar vinum treysta sér ekki til að setja „like” á færslurnar okkar á Facebook tengdum þessu máli og við bara lifum með því.”
En á móti kemur að þau Svavar og Sonja segjast upplifa ómetanlegan stuðning frá fólki alls staðar að.
„Ég er að reka fyrirtæki og fólk sem er að koma til mín og snýr sér að mér og hrósar okkur fyrir það sem við erum að gera og hvetur okkur áfram og það er gríðarlega mikils virði,” segir Svavar. Þá hefur verið mikil og góð þátttaka í mótmælafundum tengdum máli Oscars og ljóst að bæði Oscar, Svavar og Sonja eiga mikið bakland þarna úti.
Í þættinum segja þau líka frá því hvernig þeim finnst að barnaverndaryfirvöld í Hafnarfirði hafi brugðist Oscari og hafa ekki unnið að vernd fyrir hann. Þau segja að barnaverndaryfirvöld hafi sagt Útlendingastofnun rangt til um þær aðstæður sem biðu Oscars í Kólumbíu.
Í dag er Oscar aftur kominn til landsins, málið hans fór aftur í umsókn um vernd en var aftur hafnað. Þrátt fyrir það að barnaverndaryfirvöld á Suðurnesjum séu búin að fara yfir málið aftur og komast að þeirri niðurstöðu eftir sína vinnu að það sé ekki óhætt að senda Oscar til Kolumbíu miðað við aðstæður.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.