Skaðleg efni hafa fundist í skyri sem framleitt er í Póllandi. Bæði sveppaeitur og klórat. Er spurningunni velt upp hvort að varan sé í raun og veru holl líkt og hún er markaðssett.
Fjallað er um málið í pólska miðlinum DL. Það er prófanir sem gerðar voru á skyri frá fjórum framleiðendum. Það er Bakoma, Fruvita, Piatnica og Pilos. Skyrið er markaðssett sem holl og „íslensk“ vara en er ekki íslensk nema að nafninu til.
Prófanirnar voru gerðar hjá Matvælaöryggisstofnuninni, opinberri stofnun með aðsetur í borginni Skierniewice. Í öllum tilfellum var um vinsæla tegund af jarðarberjaskyri að ræða.
Í tveimur tegundum, það er skyri frá Fruvita og Piatnica, fundu vísindamenn klóröt. En það er efni sem á alls ekki að finnast í matvælum.
Talið er að klóratið í skyrinu hafi komið frá þrif og sótthreinsivökvum sem notaðir eru til að hreinsa framleiðslutækin. Einnig er mögulegt að klóratið hafi borist með jarðarberjunum sjálfum. Það er að þau hafi verið skoluð með klóratblönduðu vatni áður en þau voru sett út í skyrið.
Magnið var meira hjá Piatnica, það er 0,021 milligrömm í hverju kílói en 0,014 hjá Fruvita.
Klórat getur haft slæmar heilsufarslegar afleiðingar fyrir fólk. Meðal annars getur það hindrað joðupptöku í skjaldkirtli sem er sérstaklega hættulegt fyrir fólk sem á við skjaldkirtilsvandamál að stríða.
Klórat er einnig sérstaklega hættulegt fyrir börn. Þess vegna hefur Evrópusambandið sett hámarkið á klórat í mat sem 0,01 milligrömm á kíló. Bent er á að bæði skyr Piatnica og Fruvita höfðu meira magn klórats en það og einnig að jarðarberjaskyr er sérstaklega vinsælt hjá börnum.
Vísindamennirnir fundu einnig eitur í skyrinu frá fyrirtækinu Pilos. En Pilos er dótturfyrirtæki hins þýska smásölurisa Lidl.
Í prófunum á Pilos skyrinu fannst fosfórsýra sem notuð er í efni til að verja plöntur frá sveppasýkingum. Magnið sem fannst var 0,2 milligrömm á hvert kíló.
Þó að magnið sé mun meira en fannst af klórati í hinum tveimur tegundunum telur stofnunin að þetta sé ekki jafn alvarlegt. Efnið sé ekki mjög skaðlegt fólki og leyfilegt hámark sé 2,25 milligrömm á kíló.
Fyrir utan skaðleg efni voru skyrtegundirnar fjórar rannsakaðar út frá næringarlegu gildi. Það er til að svara spurningunni hvort þetta væri í raun og veru eins holl og heilnæm vara eins og auglýst er.
Komust þeir að því að próteinmagnið var ekki jafn mikið og ætla mætti. Einnig að fituskorturinn í skyrinu væri í raun frekar ókostur en kostur. Skyr væri ekki jafn náttúruleg og einföld fæða og auglýst er. Heldur frekar iðnaðarvarningur, með bragðefnum, viðbættum sykri, efnum til þykkingar og fleiru. Ætti þetta lítið sameiginlegt með hinu „hefðbundna og náttúrulega“ skyri sem upprunið er á Íslandi.
Fengu skyrtegundirnar eftirfarandi einkunnir á skalanum 0-5:
Bakoma skyr hindberja og jarðarberja – 4,6
Pilos íslenskt jarðarberjaskyr – 3,3
Fruvita íslenskt jógúrtskyr með jarðarberjum – 2,1
Piatnica íslenskt jógúrtskyr með jarðarberjum – 1,8