Það kemur eflaust mörgum á óvart en á yngri árum var Sigurður Kári Kristjánsson fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins þátttakandi i kröfugöngu á 1. maí á hverju ári. Þessu greinir hann frá í Facebook-færslu en viðhorf hans hafa breyst og miðað við færsluna virðist Sigurður Kári telja daginn í núverandi mynd vera að mestu leyti óþarfan á Íslandi og gagnrýnir harðlega forystu verkalýðshreyfingarinnar fyrir það sem hann kallar sjálftöku.
Sigurður Kári tók þátt á hverju ári í kröfugöngunni í Reykjavík. Hann gerir nánari grein fyrir þátttöku sinni í færslunni:
„Eflaust kemur þetta einhverjum á óvart og því rétt að taka fram að á þeim tíma var ég líklega meðal þeirra yngstu sem þrömmuðu niður Laugaveginn, sungu „Fram þjáðir menn í þúsund löndum“ kröfðust betri kjara, réttlætis og úrbóta. Mér finnst líka rétt að taka fram að þátttaka mín í kröfugöngum helgaðist af því að flest fólk í mínu nánasta umhverfi var þá vel til vinstri í pólíktíkinni, sumt mjög róttækt.“
Sigurður Kári segir hins vegar töluverðan tíma liðinn síðan hann hætti að vera með í kröfugöngunni:
„Frá því ég komst til vits og ára hef ég frekar verið áhorfandi að þessum viðburði.“
Sigurður Kári áréttar að hann telji sjálfsagt að launafólk komi saman og berjist fyrir betri kjörum eða öðru því sem það telji að betur megi fara á vinnumarkaði. Hins vegar sé staða mála það góð á Íslandi að 1. maí hafi tekið á sig nokkuð aðra mynd en þá sem snúi að baráttunni fyrir bættum kjörum:
„Í dag er hins vegar annar bragur á baráttudegi verkalýðsins en áður var. Það helgast ekki síst af því að þótt ýmislegt megi eflaust betur fara þá eru lífskjör almennings á Íslandi betri en víðast hvar annars staðar. Hér er kaupmáttur launa er mikill, mannréttindi eru virt, jafnrétti er hvergi meira og velmegun er almenn. Við slíkar aðstæður og í slíku samfélagi verður bragurinn yfir baráttunni fyrir réttlæti og betri kjörum annar en í löndum þar sem launafólk býr raunverulega við kröpp kjör og réttindi fólks eru fótum troðin. Þetta hefur leitt til þess að ýmis baráttusamtök nýta 1. maí til þess að berjast fyrir öðrum málefnum en þeim sem snúa að réttindum hinna vinnandi stétta.“
Sigurður Kári beinir því næst orðum sínum að Gunnari Smára Egilssyni fjölmiðlamanni og forystumanni í Sósíalistaflokknum:
„En ég sakna þess að heyra ekki viðhorf hans og annarra stjórnmála- og verkalýðsleiðtoga af vinstri vængnum til þess hvernig stjórnendur stéttarfélaganna hafa ráðstafað stórfelldum fjármunum úr sjóðum launafólks og ofan í vasa fráfarandi forystumanna félaganna af þeirri ástæðu einni af þeir ákváðu, að eigin frumkvæði, að skipta um starfsvettvang og taka sæti á Alþingi þar sem þeir njóta ríkulegra launakjara.“
Þarna er Sigurður Kári að vísa í fyrsta lagi til Ragnar Þórs Ingólfssonar sem hætti sem formaður VR þegar hann var kjörinn á þing fyrir flokk fólksins:
„Forystumenn VR ákváðu með opin augun að greiða Ragnari Þór Ingólfssyni, 10,2 milljónir króna í starfslokagreiðslu (sem Ragnar kallar reyndar framlag í neyðarsjóð sinn og fjölskyldu sinnar) úr sjóðum félagsfólks VR, þegar hann ákvað að hætta sem formaður VR og taka sæti á Alþingi fyrir Flokk fólksins.“
Sigurður Kári beinir einnig spjótum sínum að Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni og viðskilnaði hans við Rafiðnaðarsamband Íslands þegar hann hætti formennsku þar eftir að hafa verið kjörinn þingmaður fyrir Samfylkinguna:
„Stjórn þess stéttarfélags gerði starfslokasamning, sem minna hefur farið fyrir, við Kristján Þórð þegar hann tók sæti á Alþingi, en sá starfslokasamningur tryggir honum veglegar launagreiðslur frá stéttarfélaginu út júní 2025 auk þingfararkaupsins sem hann fær sem þingmaður.“
Sigurður Kári segir ljóst að almennum félagsmönnum í verkalýðsfélögum bjóðist ekki svona kjör þegar þeir skipti um starf:
„Stjórnendur félaganna hafa nefnilega gengið þannig um sjóði launafólks að fyrir fráfarandi formenn stéttarfélaganna jafnast það á við drjúgan lottóvinning skoli þeim inn á þing. Lagstúfurinn „Fram þjáðir menn í þúsund löndum“ sem ég sönglaði á árum áður á 1. maí á í dag a.m.k. ekki við um þá. Almennt launafólk nýtur ekki sömu kjara og þessir menn þegar það skiptir um vinnu og er auk þess ekki í neinni stöðu til að stunda sjálftöku úr sjóðum félaga sinna í sama mæli og þeir.“
Sigurður Kári minnir á að á vinnumarkaði gildi það almennt að fólk fái ekki laun frá fyrri vinnuveitanda þegar það sé byrjað í nýrri vinnu en það hafi ekki gilt um þessa tvo verkalýðsleiðtoga:
„Allt aðrar reglur virðast gilda um efsta lagið innan verkalýðsforystunnar. Með ólíkindum er að forseti ASÍ, Finnbjörn Hermannsson, hafi lýst því yfir opinberlega að hann ætli ekki að hafa skoðun á þessum vildarkjörum elítunnar. Baráttudagur verkalýðsins er í dag haldinn í skugga þessarar sjálftöku. Innblásnar ræður verkalýðsforingjanna í dag um bætt kjör almenns launafólks, réttlæti þeim til handa og úrbætur á vinnumarkaði missa algjörlega marks á meðan þeir sjálfir ganga með þessum hætti um sjóði umbjóðenda sinna í þágu hinna útvöldu.“