Þetta segja þau Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, í aðsendri grein sem birtist á vef Vísis í morgun. Í grein sinni hvetja þau fólk til að mæta á Austurvöll á morgun klukkan 16 þegar Alþingi verður sett.
Ragnar og Ásthildur segja að það sé rík ástæða til að láta í sér heyra. Í grein sinni segja þau frá einstæðri móður sem er á örorkubótum en hefur með harðfylgi og útsjónarsemi náð að eignast og halda íbúð.
„Hún festi vexti fyrir nokkrum árum og hefur greitt 120.000 krónur á mánuði af lánunum. En svo „féll snjóhengjan“, vextirnir losnuðu og núna á hún að greiða 270.000 krónur í hverjum mánuði. Það er ljóst að hún stendur ekki undir því. Að auki er ekki einu sinni víst að hún fái greiðslumat til þess að skuldbreyta yfir í verðtryggt lán því afborgun á því til 25 ára er orðin 155.000 krónur, sem samsvarar 6% vöxtum á óverðtryggðu láni. Henni standa því fáir kostir til boða og engir þeirra góðir. Hvernig er þetta ekki glæpsamlegt ofbeldi?“
Í grein sinni spyrja þau hvernig ríkisstjórn með snefil af sómakennd geti látið svona áhlaup á heimilin í þágu bankanna líðast á sinni vakt. „Hvernig getur fólk sem engin hefur kjörið en vinnur í Seðlabankanum, komið svona fram við fólkið í landinu? Þessi kona er bara ein af tugþúsundum. Það er fyrir fólk eins og hana sem við höfum barist af öllum okkar mætti undanfarin tvö ár.“
Ragnar og Ásthildur nefna svo fleiri dæmi:
„Svo er það fólkið sem hefur horft á afborganir lánsins hækka úr 230.000 krónum í 475.000 krónur, eða um meira en 100% frá því í apríl 2022. Þetta lán er hjá lífeyrissjóði þar sem fastir vextir voru ekki í boði, þannig að þau voru ekki hluti af „snjóhengjunni“ heldur þeim 30% sem hafa borið þessar byrðar allan tímann síðan þessi geðveiki hófst. Þau eru bara eitt annað lítið dæmi. Í stað þess að greiða 2,8 milljónir á ári, hafa þau greitt 5,7 milljónir á ári. Mismunurinn er 2,9 milljónir á einu ári. Svo er það fólkið á leigumarkaði sem er varnarlaust gagnvart hækkunum stóru leigufélaganna sem hafa nýtt sér vaxtahækkanir Seðlabankans út í ystu æsar, til að hækka þegar svimandi háa leigu.“
Ragnar og Ásthildur segja að vaxtahækkanir hafi farið illa með alla, nema kannski þau sem minnst skulda og mest eiga. Tugþúsundir standi ekki lengur undir húsnæðiskostnaði sem er kominn langt úr fyrir öll skynsamleg viðmið.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fær á baukinn í greininni og kemur fram að hann hafi verið svo ósvífinn að hvetja fólk til að ræða við bankana um endurfjármögnun. Margir gætu átt möguleika, þar sem húsnæði hefur hækkað á pappír, til að skuldsetja sig meira. „Foringi þessara stjórnlausa vaxtafíkla hefur sem sagt ítrekað hvatt fólk að skuldsetja sig meira til að greiða fyrir okurvextina sem honum væri í lófa lagið að lækka.“
Ragnar Þór og Ásthildur Lóa segja að ofbeldinu verði að linna og mörg heimili muni aldrei bíða þess bætur eða ná aftur fyrri styrk vegna þessa stjórnlausa vaxtabrjálæðis sem á þeim hefur dunið.
„Ríkisstjórn sem ekki ver heimilin fyrir árásum sem þessum er vanhæf ríkisstjórn. Hvert er erindi ríkisstjórnar sem lætur þetta glæpsamlega ofbeldi líðast á sinni vakt? Til hvers eru ráðherrar hennar og þingmenn eiginlega í pólitík, ef þetta ofbeldi og eignaupptaka er ekki nóg til að vekja þau af svefni? Ef þessi eignaupptaka ætti sér stað gagnvart fjárfestum, væruð þau fyrir löngu búin að snúast þeim til varnar. En þegar þetta eru heimilin, heyrist ekki múkk í þeim.“
Grein þeirra Ragnars og Ásthildar má lesa í heild sinni hér.