Sigurður Ingi Jóhannesson fjármálaráðherra segist vongóður um að Seðlabankinn lækki stýrivexti í næstu viku vegna lækkunar verðbólgu. RÚV greinir frá.
„Staðreyndin er auðvitað sú að við höfum séð þessa kólnun eiga sér stað. Við höfum meira kannski haft áhyggjur af því að hún gæti orðið mjög snögg og alvarleg, en enn þá náum við að tryggja að ástandið er mjög gott, óvanalega gott,“ segir Sigurður.
Verðbólga mælist nú 5,4 prósent og hefur minnkað um 0,6 prósent frá síðasta mánuði. Hefur verðbólga ekki verið lægri síðan í lok árs 2021.
Nýtilkomnar gjaldfrjálsar skólamáltíðir vega þungt í þessari lækkun verðbólgu. Í ljósi þessa varar Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, við því að fólk geri sér of miklar væntingar um vaxtalækkanir. Í raun sé ekki að eiga sér stað mikil lækkun á undirliggjandi vísitölu heldur sé lækkun verðbólgu tilkomin vegna tímabundinna lækkana. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir sé aðgerð sem aðeins sé framkvæmd einu sinni og auk þess vegi þungt lækkun fargjalda, sem eigi til að hækka og lækka í gegnum árið.
Stýrivextir eru núna 9,25% og hafa haldist þar í heilt ár. Seðlabankinn tekur ákvörðun um stýrivexti í næstu viku. Þeir hafa ekki verið lækkaðir síðan árið 2020, en þá voru þeir í sögulegu lágmarki.
Katrín telur að peningastefnunefnd Seðlabankans íhugi vaxtalækkun en hún telur rétt að stilla væntingum í hóf.