Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður lauk menntaskólaprófi frá MT árið 1974 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1979. Hann fékk svo héraðsdómslögmannsréttindi árið 1980 og hæstaréttarlögmannsréttindi árið 1986.
Hann var lögfræðingur og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins frá 1975 til 1985 og svo aftur frá 1992 til 2024. Þá var hann formaður félagsins frá árinu 1995.
Sigurður gegndi fleiri störfum samhliða störfum sínum hjá Húseigendafélaginu. Hann var dómarafulltrúi hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík árin 1983 til 1985 og sinnti málarekstri frá 1985 til 1992 í félagi við þá Ragnar Aðalsteinsson, Viðar Má Matthíasson, Tryggva Gunnarsson og Othar Örn Petersen.
Að því loknu hóf hann aftur störf hjá Húseigendafélaginu sem framkvæmdastjóri og lögfræðingur þess.
Sigurður samdi meðal annars frumvarp til laga um fjöleignarhús sem lögfest voru árið 1994 og frumvarp til húsaleigulaga sem voru lögfest sama ár.
Sigurður lætur eftir sig unnustu, fjögur börn og sjö barnabörn.
Jarðarför hans fer fram frá Hallgrímskirkju næstkomandi miðvikudag kl. 13.