Í tilefni af Hinsegin dögum var Pride-fáninn málaður á götuna í Skólamörk sem gengur stundum undir nafninu Regnbogagatan. Var gatan máluð í gærkvöldi en ófögur sjón blasti svo við í morgun. Búið var að mála hatursfull skilaboð á götuna sem beindust að hinsegin fólki.
Pétur segir að gatan hafi verið máluð með gleði og ástríðu til áminningar um að öll eigi rétt á frelsi, viðurkenningu og friði.
„Ég átti sjálfur dásamlega kvöldstund í gær ásamt hugsjónaungviði og eldri eldhugum og málaði götuna í regnboganslitum. Þetta blasti síðan við í morgun. Það þýðir aðeins eitt, regnboginn verður gerður stærri og bjartari – skínandi fallegur. Í morgun vorum við áminnt um að baráttan heldur áfram,“ segir Pétur í færslu sinni og heldur áfram:
„Hatrið út, kærleikanum allt! Það er og verður viðbragðið okkar í Hveragerði. Í Hveragerði gefum við þeim blóm sem haga sér svona, rétt eins og Hörður Torfa söng um.“