Í viðtalinu ræðir Gréta meðal annars um miklar aðgangshindranir á markaðnum sem gera samkeppnina mjög erfiða, sérstaklega fyrir litla aðila á markaðnum. Þannig bjóði heildsalar og framleiðendur stærstu matvörukeðjum landsins svo ríflega afslætti að það borgi sig fyrir hennar fyrirtæki að versla vörur af Bónus eða Krónunni. Segir Gréta að í ákveðnum tilfellum hafi Prís tekið ákvörðun um að flytja vörur til landsins.
Hún segir í viðtalinu að ekki sé óeðlilegt að einhver afsláttur sé veittur eftir magni en henni finnst það alvarlegt þegar hann er orðinn það mikill til ákveðinna aðila að það útilokar samkeppni.
„Ég er ekki að segja að það sé eitthvað ólöglegt við það, en ég veit ekki hvort það sé siðlaust,“ segir hún meðal annars. Bendir Gréta á að einn birgir hafi bent henni á að ákveðið kerfi sé í gildi sem eigi að koma í veg fyrir baráttu á markaðnum.
„Í einu svarinu sem ég hef fengið sagði: Til að halda sátt á markaði erum við með fyrir fram ákveðið skilgreint kerfi sem er ekki vikið frá.“
Spurð nánar út í hvað þetta þýðir segir Gréta í Dagmálum að þetta þýði að afslættir til stærstu aðilana á markaðnum séu það miklir að það útiloki að minni aðilar geti keppt við þá.
DV ræddi við Grétu á dögunum og kom þá fram að Prís verði á Smáratorgi á pallinum fyrir ofan Arion banka. Ekki er búið að ákveða endanlegan opnunartíma en verslunin mun þó opna í þessum mánuði. Til að byrja með verður ein verslun starfandi og þær gætu orðið fleiri ef vel gengur. Sagði Gréta að megináhersla Prís sé að vera með lægsta verðið og opið verði frá klukkan 10 til 19 alla daga vikunnar.