fbpx
Laugardagur 14.september 2024
Fréttir

Íslensk blúsgoðsögn lést í brunanum við Amtmannsstíg

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024 12:34

Halldór Bragason, tónlistarmaður.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarmaðurinn Halldór Bragason var sá sem lést í húsbruna í íbúð sinni við Amtmannsstíg 6 þann 13. ágúst síðastliðinn. Halldór var fæddur þann 6. nóvember 1956 og var því 67 ára gamall þegar hann lést. RÚV greindi frá.

Halldór, sem alla jafna var kallaður Dóri, var einn færasti gítarleikari landsins og goðsögn í íslensku blússenunni hérlendis. Hljómsveit hans, Vinir Dóra, var þar í fararbroddi en sveitin, sem gaf út fjölda hljómplatna á ferli sínum, varð til þegar Dóra og félögum hans bauðst að hita upp fyrir tónleika breska blús- og rokkgoðsins John Mayall árið 1989. Þá lék Dóri sjálfur með fjölda annarra blússveita þar á meðal Landsliðinu, The Riot, Þrælunum, Blúsboltunum og Big nós band. Dóri var ein af driffjöðrunum á bak við Blúshátíð í Reykjavíkur um árabil en hann var útnefndur heiðursfélagi hátíðarinnar árið 2013.

Þá bar Dóri hróður íslenskrar blústónlistar langt út fyrir landsteinanna og spilaði víða um heim. Tilviljun réði því að hann tengdist inn í blússenuna í Chicago í Bandaríkjunum, á upphafsárum Vina Dóra, og má segja að einskonar tónlistarloftbrú hafi myndast yfir Atlantshafið um árabil, þökk sé honum, þar sem að íslenskir og bandarískir blúslistamenn spiluðu á tónleikum og hátíðum hvors annars og sömdu og gáfu út tónlist.

Lærði á gítar hjá flóttamanninum Gaston

Dóri, sem var Reykvíkingur í húð og hár, sagði frá ævi sinni í frábæru viðtali hjá Morgunblaðinu árið 2006 en þar kom meðal annars fram hvernig að franskur flóttamaður, Gaston að nafni, kenndi honum á gítar og varð þar með mikill áhrifavaldur í lífi hans. Dóri var lærður rafeindavirki og vann lengi hjá Ríkisútvarpinu. Í áðurnefndu viðtali lýsti hann því hvernig hann týndi næstum lífinu þegar hann lenti í flugslysi með Ómari Ragnarssyni og fleirum árið 1987 við Mývatn þar sem verið var að vinna að sjónvarpsverkefni. Þrátt fyrir að um svakalega lífreynslu hafi verið að ræða fór þó betur en á horfðist og allir komust heilir frá hildarleiknum. Dóri varð þó fyrir meiðslum á hálsi í slysinu sem háðu honum að einhverju leyti alla tíð.

Dóri átti tvo syni, Braga, sem var fæddur árið 1985 en lést aðeins tvítugur að aldri, og Andra Frey, sem er fæddur árið 1987.

Dóri reyndi ýmislegt á ævi sinni en í  áðurnefndu viðtali við Morgunblaðið, sem tekið var um ári eftir fráfall Braga sonar hans, barst talið af því hvernig hann glímdi við þær erfiðu aðstæður sem koma upp í lífinu og þá lét tónlistarmaðurinn þessi orð falla:

„Það er merkilegt hvað mannskepnan getur risið hátt – verið nánast eins og guðleg vera – og hvað hún getur lagst lágt. Það er hinn eilífi tvöfaldleiki lífsins. Ég reyni að staðsetja mig í miðjunni og horfa til beggja átta. Hið góða og hið jákvæða er mér þó jafnan ofar í huga. Það er val að vera jákvæður og koma auga á möguleikana. Það val er ég að reyna að iðka núna. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu vali. Maður getur valið kvölina og eymdina en líka gleðina og jákvæðnina. Mín tilfinning er sú að ljóstíran sé alltaf til staðar. Húmorinn er manninum líka nauðsynlegur. Án hans væri lífið bara táradalur. Ef þú horfir bara á okkur, mannkynið, þá blasir við að Guð hlýtur að vera mikill húmoristi.“

Síðustu tvö æviár sín glímdi Dóri með hetjulegum hætti við krabbamein. Fjölskylda hans og vinir höfðu fyrir nokkru ákveðið að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur, en þangað sótti Dóri sér mikinn styrk í glímu sinni, bæði sálar- og líkamlega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Dapurt að þeir skuli hafa ákveðið að hætta með þetta“

„Dapurt að þeir skuli hafa ákveðið að hætta með þetta“
Fréttir
Í gær

Sigurður Helgi er látinn

Sigurður Helgi er látinn