Viðskiptaráð Íslands segir að afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%, en ráðið gerði úttekt á áhrifum afnáms tolla á dögunum. Írskar nautalundir myndu lækka um 37%, Mozzarella ostur um 38% og danskar kjúklingabringur um 43% svo örfá dæmi séu tekin.
Sigurður Ingi segir við Morgunblaðið í dag að honum finnist það vera einföldun hjá Viðskiptaráði að leggja þetta til. Tollar séu notaðir í allflestum ef ekki öllum löndum til að tryggja og vernda innlenda framleiðslu og búa til virðisauka í landinu þar sem vörurnar eru framleiddar.
„Hluti af því er að tryggja fæðuöryggi og þetta er líka fullveldismál. Ísland er land þar sem landbúnaðarafurðir eru í mjög háum gæðaflokki,“ segir hann.
Aðspurður hvort það skipti engu að afnám tolla af innfluttum matvörum myndi leiða til umtalsverðrar lækkunar á vöruverði, neytendum til hagsbóta, segir Sigurður Ingi:
„Um leið myndi það rústa íslenskum landbúnaði og lifibrauði þeirra þúsunda manna sem hafa atvinnu sína af honum. Einnig byggð í landinu og slíkt myndi hafa ævintýralega röskun í för með sér. Ég er ekki viss um að heildaráhrifin af slíkri aðgerð yrðu jákvæð.“