Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu uppi vísbendingar um hugsanlega refsiverða eða ámælisverða háttsemi lögreglumanna vegna viðbragða við mótmælum þann 31. maí síðastliðinn.
Telur nefndin, sem skipuð er lögmönnunum Skúla Þór Gunnsteinssyni, Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur og Kristínu Edwald, ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna málsins. RÚV greindi fyrst frá málinu.
Áðurnefnd mótmæli, sem snerust um ástandið fyrir botni miðjarðarhafs, áttu sér stað í Skuggasundi í tilefni af ráðherrafundi. Reyndu mótmælendur meðal annars að hindra för ráðherrabíla.
Lögreglumenn sáu ástæðu til þess að nota piparúða til þess að hafa hemil á mótmælendum og var sú háttsemi gagnrýnd harðlega. Var háttsemin síðan kærð til eftirlitsnefndarinnar.
Nefndin fór yfir upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem og annað myndefni sem meðal annars birtist í fjölmiðlum.
Er niðurstaða nefndarinnar í grófum dráttum sú að mótmælendur hafi hindrað för ráðamanna frá fundarstaðnum og hafi virt að vettugi ítrekuð fyrirmæli lögreglu um að víkja. Þá hafi lögreglumenn einnig hótað því að piparúða yrði beitt ef að ekki yrði farið að tilmælunum.
Telur nefndin að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að háttsemi lögreglumanna hafi verið ámælisverð. Telur nefndin að lögreglan hafi ekki gengið lengra en nauðsyn krafði við störf sín í umrætt sinn og því hafi meðalhófs verið gætt.