fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Ellefu hljóta myndarlegan styrk upp á 3,5 milljónir króna frá stofnun Leifs Eiríkssonar

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 15. maí 2024 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stofnun Leifs Eiríkssonar hefur veitt ellefu íslenskum og bandarískum háskólanemum styrki til framhaldsnáms á skólaárinu 2024-25. Hver styrkur nemur um 3,5 milljónum króna. Þetta markar 20. árið sem styrkjum er veitt úr sjóðnum og samtals hafa 160 stúdentar hlotið styrki, þar af rúmlega 80 Íslendingar. Margir í hópi fyrri styrkþega hafa orðið leiðtogar í íslensku samfélagi á sviðum menntunar, listsköpunar og menningar, vísinda og nýsköpunar, viðskipta og fleiri greina atvinnulífsins.

Íslensku styrkþegarnir nú eru 7 talsins og munu stunda meistara- eða doktorsnám í Bandaríkjunum á sviðum mannerfðafræði og erfðaráðgjafar, tölfræði og gagnavísinda, umhverfisvísinda, lyfjafræði, heimildamyndagerðar, hagnýtrar tölfræði og lögfræði.

Bandarísku styrkþegarnir sem koma hingað á næsta skólaári stunda nám og rannsóknir í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, stafrænni heilbrigðistækni við Háskólann í Reykjavík, norrænum fræðum við Árnastofnun og fornleifafræði við Byggðastofnun Skagfirðinga.

Íslensku nemendurnir sem hlutu styrk eru:

Arnhildur Tómasdóttir til meistaranáms í mannerfðafræði og erfðaráðgjöf við Stanford háskóla í Kaliforníu. Arnhildur lauk grunnnámi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands.

Benedikt Fadel Farag til meistaranáms í tölfræði og gagnavísindum við Yale háskóla í Connecticut. Hann lauk BS námi í byggingaverkfræði við Háskóla Íslands og er að ljúka framhaldsnámi við University of Washington.

Enar Kornelius Leferink til meistaranáms (MESc) í umhverfisvísindum við Yale háskóla. Hann lauk grunnnámi í hagfræði við University of Chicago.

Erna María Jónsdóttir til rannsókna og þróunar lyfjabera til meðhöndlunar brjóstakrabbameins við University of Georgia. Námsdvölin er hluti af doktorsnámi Ernu við Háskóla Íslands. Erna lauk BS og MS námi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands.

Gríma Eir Geirs Irmudóttir til meistaranáms (MFA) í heimildamyndagerð við Northwestern University í Illinois með áherslu á umhverfis- og samfélagsfræði. Gríma lauk grunnnámi í fjölmiðla- og menningarfræði við University of the Arts í London.

Hildur Hjörvar til LLM náms í lögfræði við Harvard háskóla í Boston með áherslu á alþjóðlega mannréttindalögfræði. Hildur lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Inga Guðrún Eiríksdóttir til doktorsnáms í hagnýtri tölfræði og líkindafræði við University of California Santa Barbara. Inga Guðrún lauk BS námi í stærðfræði við Háskóla Íslands og meistaranámi frá University of California Santa Barbara.

Bandarísku nemendurnir sem hlutu styrk til að stunda nám á Íslandi eru:

Alex Benjamin Casteel til rannsókna á íslenskri byggingarlist og torfbæjum við Byggðasafn Skagfirðinga. Námsdvölin er hluti af doktorsnámi hans í fornleifafræði við University of California Los Angeles. Alex lauk BA námi frá Willamette University í Oregon og MA námi við Háskóla Íslands og Oslóarháskóla.

Colin Fisher til doktorsnáms í íslenskri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Colin lauk BA námi frá Binghamton University í New York fylki og MA í miðaldafræði frá Háskóla Íslands.

Sydney Lauren Fox til meistaranáms í stafrænni heilbrigðistækni við Háskólann í Reykjavík með áherslu á örplastmengun á norðurslóðum. Sydney lauk BS námi í lífefnafræði frá California State University Fresno.

Holly Frances McArthur til rannsókna við Stofnun Árna Magnússonar í norrænum fræðum með áherslu á Flóvents sögu. Námsdvölin er hluti doktorsnáms hennar við University of Wisconsin-Madison. Holly lauk grunnnámi við New College of Florida og meistaranámi frá Háskóla Íslands.

Stofnun Leifs Eiríkssonar (www.leifureirikssonfoundation.org) var sett á laggirnar árið 2001 til að minnast siglingar Leifs Eiríkssonar til Norður Ameríku þúsund árum áður og til að styrkja íslenska nemendur til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og bandaríska nemendur til náms á Íslandi. Stofnfé sjóðsins nam söluandvirði silfur minnismyntar sem slegin var í samstarfi Seðlabanka Íslands og Bandarísku myntsláttunnar en jafnframt hafa peningagjafir borist frá einstaklingum. Sjóðurinn hefur verið í vörslu sjóðsstjórnar University of Virginia og nemur nú um 1,2 milljarði króna.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð Kristínu Ingólfsdóttur fyrrverandi rektor Háskóla Íslands sem er formaður, Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðingi, John T. Casteen fyrrverandi rektor University of Virginia, Susan Harris lögfræðingi við University of Virginia og Jennifer Grayburn við Miðstöð stafrænnar kennslu og opinna vísinda hjá Princeton háskóla. Stjórnin er skipuð af Seðlabanka Íslands, ríkisstjórn Íslands og University of Virginia. Matsnefnd skipuð sérfræðingum úr hópi fyrri styrkþega metur styrkumsóknir og gerir tillögu að úthlutun til stjórnarinnar. Matsnefndin er skipuð þeim Herði Jóhannssyni yfirverkfræðingi hjá Teledyne Gavia, Arnaldi Hjartarsyni héraðsdómara og Christine Schott prófessor í bókmenntum og norrænum fræðum við Erskine College.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt