fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Ívar Örn fékk hjartastopp við handtöku og lamaðist varanlega – „Uppgjöf er ekki til í minni orðabók“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 1. mars 2024 09:00

Ívar Örn Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ívar Örn Ívarsson var 22 ára gamall þegar hann fékk sitt fyrsta og eina geðrof 11. maí 2010, sem átti eftir að hafa gríðarlegar afleiðingar. Í kjölfarið var Ívar Örn handtekinn í sturtu hjá nágranna hans, fékk hjartastopp, heilaskaða og lamaðist varanlega. Í dag er hann lögblindur á báðum augum, með varanlega fötlun, skerta hreyfigetu, spastískar hreyfitruflanir í fótum og útbreiddan heilaskaða. 

Í blaði Heimildarinnar sem kom út í dag er viðtal við Ívar Örn og föður hans Ívar Harðarson og ítarleg umfjöllun um málið og málaferli sem fylgdu í kjölfarið. Þar sem Ívar Örn man ekkert frá atburðum þessa dags byggir ítarleg umfjöllun Heimildarinnar á dómsskjölum og frásögnum vitna.

Alblóðugur í annarlegu ástandi að sögn nágranna 

Þennan örlagaríka dag urðu nágrannar varir við að hann var í annarlegu ástandi úti á plani. Nágrannar greindu frá því að Ívar Örn hefði verið í gallabuxum, ber að ofan og allur rauður, eins og hann væri blóðugur. Rauði liturinn var fæðubótarefnið. Nágrannar hringdu á lögregluna.

Handtekinn í sturtunni

Ívar Örn varð hræddur þegar honum var tilkynnt að lögreglan væri á leiðinni, flúði vettvang og fannst hjá nágranna, sem hafði boðið honum inn og reynt að róa hann með því að senda hann í sturtu. Við handtökuna fékk Ívar Örn hjartaáfall og eftir endurlífgunartilraunir í 25 mínútur sló hjarta hans að nýju. Hann var meðvitundarlaus við komu á spítala og fljótlega var hann svæfður og fluttur á gjörgæslu til kælingar. Næstu fimm daga var honum haldið sofandi í öndunarvél. Tveimur dögum eftir að hann var tekinn úr öndunarvél sýndi taugaskoðun útbreiddan heilaskaða af völdum súrefnisskorts. 

Ákæra aldrei gefin út

Í handtökuskýrslu var brot Ívars Arnars  sagt felast í vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna. Ákæra á hendur honum var aldrei gefin út.


Vildu viðurkenningu á skaðabótaskyldu ríkisins

Í október 2015 var stefna lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur til viðurkenningar á skaðabótaskyldu ríkisins vegna varanlegs líkamstjóns sem Ívar Örn varð fyrir þegar handtakan átti sér stað. Í umfjöllun Heimildarinnar  eru vitnaleiðslur þeirra sex lögreglumanna sem viðstaddir voru handtökuna raktar og þrjár matsgerðir sem þrjú teymi sérfræðinga unnu. Frásögn um handtökuna var frekar óljós og fyrir dómi greindi vitni meðal annars á um hvort lögreglumennirnir hefðu misst Ívar Örn í gólfið við handtökuna, og hvort hann hefði hnigið meðvitundarlaus niður eða misst meðvitund þar sem hann lá á gólfinu. 

Ívar Örn vann málið í Héraðsdómi Reykjavíkur en Hæstiréttur ómerkti dóminn og vísaði málinu aftur heim í hérað. Í seinni dómi héraðsdóms var það talið með öllu ósannað að aðgerðir lögreglu hafi verið óeðlilegar eða of harkalegar, eða að einstaka atvik  hafi orðið til þess að leiða yfir Ívar Örn það tjón sem hann varð fyrir.

„Dómurinn telur því ósannað að átökin við lögreglu hafi orsakað það að stefnandi fór í hjartastopp.“ 

Landsréttur staðfesti dóminn og Hæstiréttur einnig árið 2020. Tíu ára baráttu var lokið og segir faðir Ívars Arnars að allt hafi snúist um að leita að sök sonar hans.

Fyrir handtökuna var Ívar Örn mikill íþróttamaður, stundaði líkamsrækt fjórum sinnum í viku, átti krossara og stundaði golf. Feðgarnir segja frá bataferli Ívars Arnars, en fyrst lærði hann að borða að nýju, áður en faðir hans hjálpaði honum að ganga að nýju, en Ívar Örn þjálfar sig á hverjum degi og fer í sjúkraþjálfun, jóga, lyftingar og fleira. „Uppgjöf er ekki til í minni orðabók,“ segir hann.

Segir Heimildin lögmann hans íhuga að sækja um endurupptöku á málinu.

„Ekki hefur verið hægt að finna læknisfræðilegar skýringar á því að Ívar endaði í hjartastoppi einmitt á því augnabliki sem hann var í haldi lögreglumanna – og á ábyrgð þeirra. Átti valdbeiting lögreglunnar þátt í því orsakasamhengi sem leiddi til ástands Ívars?“

segir í niðurlagi umfjöllunar Heimildarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt