fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fréttir

Lætur embætti ríkislögreglustjóra ekki í friði

Ritstjórn DV
Föstudaginn 29. nóvember 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umboðsmaður Alþingis hefur tekið undir þá niðurstöðu embættis ríkislögreglustjóra að blokka netföng manns og hætta að svara honum en maðurinn hefur á undanförnum árum sent embættinu fjölda tölvupósta og hljóðskilaboða auk þess að hringja margsinnis í embættið. Vísaði embættið til þess að í fæstum tilfellum hefðu skilaboð, bréf og símtöl frá manninum haft nokkuð með verksvið þess að gera og fjöldinn væri slíkur að það hafi hamlað starfsemi þess.

Maðurinn kvartaði yfir því við umboðsmann að erindum hans til embættis ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytisins hefði ekki verið svarað.

Í bréfi umboðsmanns til mannsins segir að óskað hafi verið eftir skýringum frá embætti ríkislögreglustjóra. Í þessum skýringum séu samskipti mannsins við lögregluyfirvöld frá sumrinu 2019 rakin. Fram komi að ríkislögreglustjóra hafi á liðnum árum borist mikill fjöldi símtala, sendinga með hljóðupptökum og tölvupósta frá manninum sem virðist að mjög takmörkuðu leyti tengjast starfssviði þess.

Í því sambandi sé tekið fram að haldið hafi verið utan um samskipti við manninn í málaskrá embættisins. Þar sé að finna 185 tölvupósta sem flestir snúist um sama efni. Það hafi verið mat ríkislögreglustjóra að um óhóflegt magn erinda væri að ræða sem bitnaði á möguleikum embættisins til þess að sinna verkefnum sínum. Af þeim sökum hafi verið ákveðið að loka fyrir móttöku tölvupósta úr netföngum mannsins síðla árs 2020. Áður en til þess kom hafi honum verið tilkynnt munnlega um þá tilhögun og ástæður hennar. Hafi ríkislögreglustjóra því ekki verið unnt að móttaka né afgreiða erindi hans síðan þá.

Má í svona tilvikum

Í bréfi umboðsmanns til mannsins er vísað þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar að almennt sé stjórnvöldum skylt að bregðast við erindum borgara. Þrátt fyrir þá reglu verði að telja að stjórnvald geti í undantekningartilvikum ákveðið að takmarka skrifleg samskipti við borgara, til dæmis með því að loka fyrir tiltekna samskiptaleið. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar þurfi við þessar aðstæður að leggja heildstætt mat á slík tilfelli. Gæta þurfi málefnalegra sjónarmiða og þess að ekki sé gengið strangar í sakirnar en nauðsyn krefji. Í því tilliti verði að telja málefnalegt að horfa til þess hvort um mikinn fjölda erinda, jafnvel sama efnis, sé að ræða frá sama einstaklingi og þess hvort afgreiðsla þeirra sé til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á starfsemi stofnunarinnar og möguleika hennar á að sinna öðrum verkefnum.

Umboðsmaður segir að miðað við skýringar embættis ríkislögreglustjóra hafi þessi ákvörðun, að loka fyrir sendingar úr netföngum mannsins, grundvallast á heildstæðu mati á efni, innihaldi og fjölda erinda hans sem einungis hafi að litlu leyti tengst starfsemi og verksviði embættisins. Þar af leiðandi telur umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við það mat embættis ríkislögreglustjóra að nauðsynlegt hafi verið að loka fyrir netföng mannsins með þeim hætti sem gert var. Takmörkunin einskorðist við tiltekin netföng mannsins og sé honum enn unnt að hafa samband við embættið í síma og með bréfpósti. Það sé einnig metið reglulega hvort ástæða sé til að endurskoða ákvörðunina.

Hvað varðar kvörtun mannsins um að dómsmálaráðuneytið hefði heldur ekki svarað erindum hans þá kemur fram í þessu bréfi umboðsmanns Alþingis að ráðuneytið hefði þegar svarað manninum og teldi sig ekki hafa heimildir til að aðhafast nokkuð vegna þeirra.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn
Fréttir
Í gær

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín