fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fréttir

Jórunn Inga leitar að listaverkum sínum – „Nú ætla ég að láta reyna á mátt Facebook“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 29. nóvember 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listakonan Jórunn Inga Kjartansdóttir leitar nú afdrifa tíu málverka sinna sem héngu á veitingastaðnum Dragon Dim Sum í Hafnarbúðum á Geirsgötu í Reykjavík. Staðurinn lokaði í vor og svo virðist sem flest verkin hafi ratað þaðan í Góða Hirðinn og selst um leið.

„Ég vil taka skýrt fram að ég er ekki að leita að neinum sökudólgi og það hafi verið farið illa með mig, þó ég viðurkenni að ég var mjög svekkt að fólk hafi ekki spáð í það að allar myndirnar tilheyrðu sama safninu og voru merktar mér í bak og fyrir. Ég setti ekki þessa færslu til að vera gröm og reið og bitur,“ segir Jórunn Inga. 

Jórunn Inga

Á miðvikudag birti hún færslu á Facebook þar sem segir: „Nú ætla ég að láta reyna á mátt Facebook. Hvernig á ég að byrja á þessari frásögn. Hún er svolítið súrrealísk eins og reyndar myndirnar sem fylgja póstinum  og tilheyra seríunni minni Sea Creatures/Sjávardýr. Verkin voru til sýnis á veitingastaðnum Dragon Dim Sum í Hafnarbúðum Geirsgötu. Bara voða gaman og allt í fína með það. Nema svo að einn daginn fer staðurinn í gjaldþrot. Lok lok og læs og allt í stáli og ekkert spurðist til eigendanna. Nú eru góð ráð dýr. Hvar eru myndirnar mínar? Einn daginn fær dóttir mín svo símtal frá vini okkar sem vinnur í Góða Hirðinum. Hann segir: „Ég sá mynd eftir mömmu þína hérna og fór og spurðist fyrir“, kemur þá í ljós að fleiri myndir hefðu komið inn um morguninn og þær væru allar farnar. Hvað er í gangi ?? Ég viðurkenni að mér var mjög brugðið svo ekki sé meira sagt, en eftir að hafa tekið mér tíma til að jafna mig, huggaði ég mig við það að þær væru allavegana hangandi upp á vegg hjá einhverjum. Ég er mjög forvitin að vita hvert myndirnar mínar fóru og er það ástæðan fyrir þessum pósti mínum. Ég er ekki að biðja um að fá þær til baka þar sem kaupendur keyptu þær með góðri samvisku. En gaman væri að frétta af þeim. Þið megið endilega deila þessum pósti fyrir mig.“

Myndirnar tíu á veitingastaðnum.

„Það er ekkert við þessu að gera og ég er alls ekki reið eða bitur. Mér fannst þetta mjög leitt og ég fékk í magann hvað varð um myndirnar, hvort þeim hafi bara verið hent. En nei þær fóru í Góða hirðinn og mér létti að einhver hefði keypt þær sem langaði að hafa þær upp á vegg hjá sér. Þetta var ástæðan fyrir að ég ákvað að skutla þessari færslu inn,“ segir Jórunn Inga.

Myndin sem vinur Jórunnar Ingu fann í Góða hirðinum

„Þessar myndir, Sjávardýrin, eru algjörlega mín sköpun eins og allar mínar myndir. Sjávardýrin eru einn af mörgum stílum sem ég geri, þær eru auðþekkjanlegar og eru það sem einkennir mig. Sjávardýrin eru mín „börn“ og ég hafði lagt mikla vinnu í myndirnar þar til ég ákvað að fara með þær til Íslands. Alltaf þegar ég fer til Íslands, sem er af og til, held ég pop up sýningar hér og þar í nokkra daga. Myndirnar voru tíu talsins, allar á striga. Þetta var ekki sölusýning, mig langaði bara að hengja upp myndirnar mínar eins og listamenn vilja og var búin að tékka á einhverjum kaffihúsum. Og bauðst svo að hengja upp myndirnar mínar á þessum stað, sá ekki um það sjálf og var ánægð með fyrirkomulagið, var svo ekki mikið að spá í þessu og var bara að vona að sem flestir sæu myndirnar þar. Það var enginn skriflegur samningur heldur um hversu lengi myndirnar ættu að hanga þarna uppi, bara að þær myndu vera í nokkra mánuði.“

Hafði ekki hugmynd um að veitingastaðnum var lokað

Jórunn Inga segir að myndirnar hafi verið hengdar upp á staðnum seinni partinn í febrúar á þessu ári. Í lok maí kom frétt á Vísi um að lokað hefði verið á staðnum í nokkrar vikur og í lok júlí kom síðan frétt á Mbl um að eigendur staðarins væru að leita að nýju húsnæði og hygðust opna staðinn aftur. Segist Jórunn Inga sem búsett hefur verið í Sviss um árabil ekki hafa haft neina hugmynd um þessar vendingar á staðnum.

Er ekki að leita að sökudólgi

Segir Jórunn Inga marga hafa bent henni í athugasemdum við færslu hennar á að tala við lögfræðing og löregluna, tala við skiptastjóra þrotabúsins og krefjast einhvers. „Fallega hugsað og góð hvatning og allt það, en ekki það sem ég ætla að gera. Í gær fékk ég allar upplýsingar um félagið og að það væri ekki komið í þrot. Og sá síðan viðtal við eigendurna um að þeir stefndu á að opna aftur í haust. Ég vissi ekkert af þessu. Mig langar að komi fram að ég geri mér grein fyrir hversu erfitt getur verið að standa í veitingarekstri heima, sjálf hef ég ekki rekið veitingastað, en þetta er harður og erfiður rekstur,“ segir Jórunn Inga sem ítrekar að hún er alls ekki að leita að neinum sökudólgi.

Leitar enn að fimm myndum

Eins og áður sagði voru myndirnar tíu sem hengdar voru upp í upphafi. Jórunn Inga segir að af myndum af fasteigninn þar sem hún er auglýst til sölu hafi hún séð að myndirnar voru níu talsins, ein hefur þá verið búin að rata eitthvað annað.

Vinur hennar, listamaðurinn Hellkat, sem vinnur í Góða hirðinum rakst eins og áður sagði á eina myndina þar. „Hann þekkir myndirnar mínar mjög vel. Og sagði við mig að hann hefði af einhverri ástæðu farið inn í myndadeildina í Góða og séð eina af myndunum þarog spurst fyrir og fengið þau svör að þær hefðu komið fleiri deginum áður og hinar allar seldar. Ég veit ekki hversu margar rötuðu í Góða hirðinn,“ segir Jórunn Inga. Hún segist heldur ekki vita hverjir tæmdu veitingastaðinn, hvort það voru eigendur veitingastaðarins, eigendur húsnæðisins eða einhverjir sem fengnir voru í verkið. 

Jórunn Inga segist fyrst hafa ætlað að setja bara færslu á eigin vegg, en dóttir hennar hafi bent henni á að hún yrði líka að deila í einhverja Facebook-hópa og deildi Jórunn Inga færslu sinni í Góða systir. „Mér hlýnaði bara um hjartarætur hvað margar létu sig þetta varða og skrifuðu að þeim þætti þetta leiðinlegt. Ég fékk líka mörg skilaboð frá fólki um að því þætti myndirnar fallegar. Þetta er það sem maður þarf á að halda sem listamaður. Ég setti færsluna síðan á þrjár aðrar síður og þá fór allt af stað.“ 

Í gærkvöldi fékk Jórunn Inga skilaboð frá konu sem keypti þrjár af myndunum. „Þessi athugasemd gladdi mig mjög mikið. Konan skrifar: „Já en gaman, ég keypti þrjár myndir og hanga þær nú uppi á vegg í húsi í Trékyllisvík á Ströndum. Skal senda þér mynd næst þegar ég fer.“ Það voru svona fréttir sem mig langaði að fá,“ segir Jórunn Inga. Ég svaraði konunni og sagði: „Enn skemmtilegt frábær staðsetning, gaman að heyra.“

„Trékyllisvík á Ströndum, ertu að grínast. Hanga líklega uppi í fallegu sumarhúsi,“ segir Jórunn Inga sátt við þessi skilaboð. 

Önnur kona sendi skilaboð seint í gærkvöldi og sagðist hafa keypt eina mynd. 

Því vantar Jórunni Ingu enn að vita hvað varð um fimm af myndunum tíu. Jórunn Inga og blaðamaður velta fyrir sér hvort að einhverjar myndanna bíði eftir að verða jólagjafir og hún þurfi því að bíða fregna um afdrif þeirra. 

Þeir sem keyptu myndirnar í Góða hirðinum eða eignuðust þær með öðrum hætti eru hvattir til að senda Jórunni Ingu skilaboð í gegnum Facebook eða Instagram  þar sem hana langar aðeins til að vita hvar myndirnar eru niðurkomnar í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn
Fréttir
Í gær

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín