Sigurður Ragnar Kristinsson var í dag dæmdur til greiðslu 245 milljón króna sektar til ríkissjóðs og 12 mánaða skilorðsbundins fangelsis. Greiðslu á helmingi sektarinnar, eða 122.500.000 krónum, er frestað í þrjú ár frá birtingu dómsins haldi Sigurður almennt skilorð, en helminginn ber honum að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms Héraðsdóms Reykjaness sem féll í dag.
Sigurði er einnig óheimilt að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meirihluta atkvæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár frá birtingu dómsins. Honum ber jafnframt að greiða allan sakarkostnað málsins þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,1.934.400 krónur og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins,, 250.000 krónur.
Málið var höfðað gegn Sigurði þann 6. júní í þremur ákæruliðum fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins SS hús sem daglegum stjórnanda með því að
hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilsins september – október rekstrarárið 2017 og hafa með því vantalið virðisaukaskattskylda veltu samtals að fjárhæð 164.345.648 krónur og eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var, eða innheimta bar, í rekstri einkahlutafélagsins vegna sama uppgjörstímabils,
eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilsins janúar – febrúar 2017 og eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var, eða innheimta bar, í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar til og með júlí – ágúst rekstrarárið 2017, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 28.627.812 krónur,
Og eigi staðið skil á staðgreiðsluskilagreinum opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna maí, júní, september og október rekstrarárið 2017 og eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins greiðslutímabilin febrúar til og með október rekstrarárið 2017, samtals að fjárhæð 72.524.254 krónur.
Gjaldþrotaskiptum á þrotabúi verktakafyrirtækisins SS hús 27.mars 2020 og kom fram í auglýsingu um skiptalokin þann 1. apríl sama ár að lýstar kröfur í þrotabú fyrirtækisins hafi numið 883 milljónum. Fengust greiddar 20.546.435 kr. upp í lýstar forgangskröfur að fjárhæð 173.161.060 kr.
Sjá einnig: 20 milljónir fengust upp í gjaldþrot SS húsa
Sigurður sjálfur var úrskurðaður gjaldþrota um miðjan janúar árið 2018.
Í dóminum kemur fram að Skattrannsóknarstjóri hafi hafið rannsókn á bókhaldi, staðgreiðsluskilum og virðisaukaskattskilum SS húsa ehf. vegna rekstrarársins 2017. Þegar leið á rannsóknina var ákveðið að afmarka hana við skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna febrúar til og með október 2017 og bókhaldi og virðisaukaskattskilum vegna janúar til og með október 2017. Í upphafi rannsóknarinnar höfðu auk tveir aðrir, auk Sigurðar, stöðu sakbornings. Rannsókn Skattrannsóknarstjóra lauk með skýrslu 28. september 2018 og í mars 2019 var hinum tveimur sem höfðu stöðu sakbornings tilkynnt að málinu hefði verið vísað til héraðssaksóknara og þeir ekki tilgreindir sem sakborningar.
Í tveimur skýrslutökum hjá Skattrannsóknarstjóra segist Sigurður hafa fengið annan aðila til að taka stöðu hans hjá félaginu á pappírum. Sigurður sagðist hafa gert þetta þar sem hann hafi verið í vandræðum með sitt nafn. Hann hafi flutt erlendis á árinu 2017 en samt stjórnað félaginu áfram með tölvupóstum og í gegnum síma. Sagði hann að virðisaukaskýrslum hafi verið skilað of seint vegna anna, einnig hafi fyrirtækið aðeins átt fjármuni til að greiða laun.
Fyrir dómi neitaði Sigurður sök og sagðist ekki hafa verið á launum hjá SS hús árið 2017. Segist hann hafa samþykkt að taka á sig sökina til að koma öðrum undan ábyrgð þar sem málið var til rannsóknar hjá Skattrannsóknarstjóra.
„Ákærði kvaðst hafa fengið skilaboð um það í gegnum lögmann sinn á sínum tíma að það myndi hafa mikil áhrif á þá sem hafi borið ábyrgð á rekstri SS húsa ehf. á árinu 2017 ef þeir tækju á sig sök þegar málið var til rannsóknar hjá SRS. Hann hafi fengið ýmsar upplýsingar í gegnum lögmann sinn sem síðan komi fram í skýrslum hans hjá SRS og ákærði hafi ráðfært sig við lögmanninn um það hvað ákærði ætti að segja. Ákærði hafi því samþykkt að taka á sig sök í málinu hjá SRS og þar hafi hann ekki staðið með sjálfum sér. Þar sem ákærði hafi tekið á sig sök þegar málið var til rannsóknar hjá SRS sé ýmislegt í framburði hans þar ekki rétt eins og það að hann hafi verið rekstraraðili SS húsa ehf. frá byrjun til enda. Ákærði hafi hagað framburði sínum á þennan hátt m.a. til að koma B undan sök og vænti þess þá að ákærða yrði hjálpað þegar hann yrði hjálparþurfi.“
Sigurður krafðist sýknu í málinu og taldi rannsókn þess ábótavant. Hann hafi samþykkt að kröfu tveggja annarra „að taka á sig sök í skattalegum þætti málsins en hann hafi aldrei samþykkt að gangast undir refsingu. Hafi ákærði ætlað að leiðrétta þann framburð sem hann hafi gefið hjá SRS í skýrslutöku hjá lögreglu en þar hafi engin skýrsla verið tekin af ákærða. Hann kveðst ekki hafa komið að rekstri SS húsa ehf. á árinu 2017 né tekið ákvarðanir um hvaða gjöld skyldi greiða og hann hafi ekki verið í samskiptum við forsvarsmenn félagsins. Ákærði hafi ekki annast um bókhald félagsins né gerð skýrslna og ekki haft neina yfirsýn yfir rekstur þess. Öll ákvörðunartaka hafi verið á hendi þeirra sem hafi haft formleg og raunveruleg völd hjá félaginu. Ákærði segir að 9 engin sönnunargögn í málinu styðji við játningu ákærða hjá SRS. Hann kveðst hafa verið í mikilli óreglu á árinu 2017 og því hafi aðrir stjórnað SS húsum ehf. á þeim tíma.“
Sagðist hann hvorki hafa af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum eða skilagreinum staðgreiðslu fyrir SS hús ehf. á réttum tíma og ekki heldur að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á innheimtum virðisaukaskatti eða staðgreiðslu. Taldi hann ekki skilyrði til kröfu um atvinnurekstrarbann, og ef að hann yrði dæmdur til refsingar væri um hegningarauka að ræða við dóm frá desember 2018 og ef til sektar kæmi ætti hún að vera skilorðsbundinn.
Í niðurstöðu dómara kom fram að Sigurður hefði tvisvar gefið skýrslu hjá Skattrannsóknarstjóra að viðstöddum lögmanni sínum og þar sagst bera alla ábyrgð á rekstri SS húsa ehf. Engar mótbárur bárust frá honum vegna bréfs um lok rannsóknar á málinu og ekkert í tölvupóstum verjanda hans til héraðssaksóknara benti til að Sigurður hygðist breyta framburði sínum. Skýrsla var ekki tekin af Sigurði hjá héraðssaksóknara en dómari taldi það engu breyta um niðurstöðu málsins. Skýrslur vitna fyrir dómi staðfestu einnig að Sigurður bar fulla ábyrgð á rekstri félagsins.
Dómari taldi með hliðsjón af því að um hegningarauka er að ræða og langt um liðið síðan ákærði framdi brotin að sektin væri tvöföld sú skattfjárhæð sem ekki var greidd eða 245.000.000 króna. Þar sem langt er um liðið síðan ákærði framdi brotin dómara rétt að skilorðsbinda helming sektarinnar eða 122.500.000 krónur og fellur sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum.
Ítrekað fyrir dómstólum síðustu ár
Þetta er ekki í fyrsta sem mál tengd Sigurði Ragnari rata fyrir dómstóla og í fjölmiðla. Fjallað var um mál hans árið 2018 bæði vegna Skáksambandsmálsins svokallaða og einnig í tengslum við alvarlegt slys fyrrum eiginkonu hans, Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur.
Árið 2018
Sigurður úrskurðaður gjaldþrota um miðjan janúar árið 2018.
Í byrjun árs 2018 komst Skáksambandsmálið í fréttir þegar sérsveit lögreglunnar braust inn í Skáksamband Íslands. Lögreglan hafði haldlagt pakka með fíkniefnum sem stílaður var á Sambandið. Lögreglan skipti fíkniefnunum út fyrir gerviefni og réðst síðan til atlögu á skrifstofu sambandsins þegar pakkinn barst þangað.
Fyrrum eiginkona Sigurðar, Sunna Elvíra Þorkelsdóttir slasaðist á þáverandi heimili þeirra í Malaga-borg á Spáni um svipað leyti. Þríhryggbrotnaði hún við fallið og fékk að lokum þann úrskurð að hún væri lömuð til lífstíðar.
SS hús ehf. hafði þá verið tekið til gjaldþrotaskipta nokkrum vikum áður, og lauk skiptum á fyrirtækinu eins og áður sagði 27. mars 2020. DV greindi frá því á þeim tíma að grunur léki á um stórfelld undanskot eigna og þjófnaði úr félaginu. Sigurður átti félagið ásamt föður sínum og bróður en hann hafði stýrt félaginu allt þar til hann stakk af til Malaga á Spáni árið 2017.
Þann 6. desember var Sigurður dæmdur í tuttugu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfellt skattalagabrot í rekstri SS húsa. Þá var honum einnig gert að greiða 137 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs sem greiða skyldi innan fjögurra vikna. Ellegar sæti hann fangelsisvist í 360 daga. Þá hlaut fyrrum tengdamóðir hans einnig dóm vegna málsins, 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Árið 2019
Sigurður dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi vegna Skáksambandsmálsins í febrúar. Auk hans voru Hákon Örn Bergmann og Jóhann Axel Viðarsson dæmdir í fangelsi vegna málsins. Hákon hlaut tólf mánaða dóm meðan Jóhann Axel var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna. Í nóvember mildaði Landsréttur dóminn yfir Sigurði í þrjú og hálft ár.
Sjá einnig: Sigurður dæmdur fyrir Skáksambandsmálið
2024
Í lok október var Sigurður handtekinn ásamt fimm öðrum í rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á stórfelldu fíkniefnabroti og stórfelldri brotastarfsemi. Nokkrar húsleitir voru framkvæmdar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins en um er að ræða stærstu haldlagningu á kristal metamfetamíni í einu máli hérlendis, hald var lagt á tæplega sex kíló af metamfetamíni, fíkniefni sem er frægara undir enska nafni sínu, crystal meth. DV hefur ekki upplýsingar um hvar rannsókn á málinu er stödd.
Sjá einnig: Sigurður úr Skáksambandsmálinu aftur í klípu í stærsta kristal metamfetamín-máli Íslandssögunnar