fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fréttir

Segir lögregluna hafa ginnt áttræðan föður sinn – Kominn á sakaskrá og fær ekki safngripinn sinn til baka

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024 10:01

Áttræður faðir Guðnýjar er nú kominn á sakaskrá þrátt fyrir að hafa alltaf verið löghlýðinn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona að nafni Guðný Jóna Valgeirsdóttir segir lögreglu hafa sýnt ófagleg vinnubrögð gagnvart áttræðum föður sínum. Hann hafi ekki þekkt ný skotvopnalög en viljað fylgja þeim. Þó hann hafi fylgt fyrirmælum sé hann núna kominn á sakaskrá og fái ekki riffilinn sinn, sem er orðinn safngripur, til baka.

Guðný rekur málið í ítarlegri færslu á samfélagsmiðlum sem hún hvetur fólk til að lesa og deila.

„Mig langar að rekja hér mál föður míns sem varðar skotvopnalög sem nýlega breyttust og fáránleg vinnubrögð lögreglunnar í þessu máli. Þetta er algjörlega fyrir neðan allar hellur. Vil koma þessu á framfæri öðrum til varnaðar en það er held ég því miður fullreynt að láta lögregluna bakka með þessa ákvörðun hvað föður minn varðar. Get ekki látið þetta bara yfir okkur ganga og segja ekkert,“ segir hún.

Safngripur á háalofti

Í eldri lögum frá árinu 1998 var krafa um geymslu skotvopna í viðurkenndum skotvopnaskáp við fjórða skotvopn. Þessum lögum var breytt þann 15. febrúar síðastliðinn á þann veg að öll skotvopn skuli geymd í læstum vopnaskáp. Engar tilkynningar um þetta voru sendar á skotvopnaeigendur að sögn Guðnýjar.

„Faðir minn á eina byssu – forláta riffil sem eiginlega er bara orðinn safngripur- hefur verið í eigu hans í yfir 40 ár. Byssan hefur verið upp á háalofti ónotuð í yfir 20 ár,“ segir Guðný. „Í sumar hringdi í hann lögreglumaður til að athuga hvort hann ætti ekki þetta skotvopn ennþá þar sem skotvopnaleyfið hans var útrunnið. Jú hann játaði það og viðurkenni að hann hefði bara ekki áttað sig á því að leyfið væri útrunnið enda ekkert að nota það undanfarið. Eftir símtalið fer pabbi strax í það að endurnýja leyfið og er kominn með nýtt leyfi um 2 vikum síðar.“

Heimsókn frá lögreglumanni

Seinna um sumarið kom hins vegar óeinkennisklæddur lögreglumaður í heimsókn til hans, sýndi engin skilríki en vildi fá að sjá byssuna. Sagði hann að byssan þyrfti að vera í læstum skáp samkvæmt nýjum reglum annars gæti lögreglan innheimt byssuna. Gamli maðurinn vissi ekki af þeim reglum.

„Sagði þetta samt bara svona í samtali – ekkert eins og hann væri kominn til að tilkynna honum þetta neitt sérstaklega – hann hafði aðallega áhuga á að skoða þessa merkilegu byssu og hafði orð á því að hann væri til í að eiga hana,“ segir Guðný.

Kom og tók byssuna

Aftur birtist þessi maður þann 22. september, óeinkennisklæddur og án skilríkja, og spurði um vopnaskáp. Faðir hennar sagði að hann myndi fara strax á mánudagsmorgun að kaupa slíkan skáp.

„Lögreglumaðurinn lét sig ekki og vildi fá byssuna strax. Pabbi alltaf svo löghlýðinn að hann lét hann bara fá hana – enda ætlaði hann að kaupa skápinn strax daginn eftir og þetta yrði varla neitt mál. Ekki gat hann gert það á sunnudegi,“ segir hún.

Þetta gerði hann á mánudeginum, keypti skáp og kom honum fyrir í bílskúrnum. Þrisvar sinnum þennan dag reyndi hann að hringja í lögreglumanninn sem svaraði ekki. Á þriðjudeginum náðist loks í lögreglumanninn sem sagðist þá vera búinn að skila byssunni og nú væri þetta orðið lögreglumál. Reynt var að hafa samband við lögreglustöðina en honum sagt að bíða.

Sekt og sakaskrá

Þann 13. október fékk hann SMS um að mæta á lögreglustöðina og skrifa undir, en ekki uppgefið hvað hann ætti að skrifa undir. Daginn eftir fór hann á stöðina í Grafarholti og var þá tjáð að hann yrði að skrifa undir sektargerð vegna vopnalagabrots og greiða 100 þúsund krónur í sekt.

„Þar sem hann hélt að hann gæti ekki gert neitt annað og vildi bara klára málið þá skrifar hann bara undir og greiðir 100.000kr á staðnum. Hélt hann nú að þetta væri búið og hann gæti fengið byssuna aftur. Fór svo bara heim og beið eftir því að lögreglan hefði samband um hvort hann ætti að sækja byssuna eða hvort komið væri með hana,“ segir Guðný. „En það sem hann athugaði ekki er að með því að játa vopnalagabrot þá fer hann á sakaskrá – ekki seinna vænna áttræður maðurinn sem aldrei hefur komist í kast við lögin! Já ég vil meina að hann hafi verið plataður því þar sem hann var nú kominn á sakaskrá þá var hann búinn að „loka sig úti“.“

Hótað fangelsisvist

Þann 31. október fékk gamli maðurinn aftur SMS um skjal sem hann ætti að skoða. Þá var búið að afturkalla skotvopnaleyfið hans þar sem hann hafði viðurkennt vopnalagabrot og væri kominn á sakaskrá.

„Hann átti sem sagt engan möguleika á að bregðast við efir að byssan var tekin nema þá kannski að hlýða ekki, skrifa ekki undir og borga ekki sektina. En við því var fangelsisvist stóð í einu bréfinu,“ segir Guðný.

Í bréfinu kom fram að hann gæti sent tölvupóst til að mótmæla sem hann og gerði með fjölskyldu sinni. Sagan var öll rakin en allt kom fyrir ekki. Þann 21. nóvember kom bréf um að hann hefði brotið lög, leyfið hans væri afturkallað og hann mætti ekki eiga byssuna. Þannig stendur málið núna.

„Nú þurfum við að fara að berjast fyrir því að fá byssuna aftur á einhvern hátt með því að skrá hana á einhvern í fjölskyldunni sem er með gilt skotvopnaleyfi og vopnaskáp,“ segir Guðný. „En við vitum ekki hvort það gengur snurðulaust fyrir sig því talað er um í einu bréfinu að lögreglan megi selja byssuna.“

Engin viðvörun

Segir hún þessi vinnubrögð lögreglunnar vægast sagt einkennileg. Ef send hefði verið út formleg tilkynning í upphafi um hinar breyttu reglur hefði faðir hennar að sjálfsögðu brugðist við og klárað málið á tilsettum tíma. Aldrei kom fram hver viðurlögin væru. Aldrei kom nein tilkynning um breytt lög, viðurlög eða neitt.

„Við höfum einnig frétt að núna í október sé lögreglan farin að senda út tilkynningar til fólks,“ segir Guðný. „Aldrei var neitt slíkt sent til pabba. Einnig má nefna það að vopnaskápar eru núna nánast ófáanlegir í landinu – skiljanlega – en hvernig á fólk þá að framfylgja reglunum. Svona breyting tekur alltaf tíma í innleiðingu og það hlýtur að vera eðlilegt að fólk fái einhvern ákveðinn tíma til klára sín mál og uppfylla reglurnar.“

Að lokum nefnir hún að foreldrar sínir séu eins löghlýðnir og hugsast getur. Þau hafa verið vakin og sofin yfir þessu máli, svo mikið að fjölskyldunni var hætt að standa á sama á tímabili.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?
Fréttir
Í gær

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bjarni veitir Hval hf veiðileyfi til fimm ára

Bjarni veitir Hval hf veiðileyfi til fimm ára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Daníel Örn fær 4 ára dóm fyrir manndrápstilraun – Stakk lækni í hálsinn við Lund

Daníel Örn fær 4 ára dóm fyrir manndrápstilraun – Stakk lækni í hálsinn við Lund