fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Fréttir

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 13. nóvember 2024 09:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttamál þessa morguns virðast vera vandræðagangur frambjóðanda Samfylkingarinnar, Þórðar Snæs Júlíussonar, fyrrverandi ritstjóra Kjarnarins og Heimildarinnar. Þórður sá sig til þess knúinn í nótt að birta afsökunarbeiðni í kjölfar þess að Stefán Einar Stefánsson, stjórnandi þáttarins Spursmála á mbl.is, dró fram gömul bloggskrif hans þar sem Þórður viðhafði ýmis vafasöm ummæli, meðal annars ummæli sem bera keim af kvenfyrirlitningu, en í Þórður hafði skrifað að konur væru  „lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur sem svífast einskis til að ná því fram sem þær vilja“.

Sjá einnig:Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós:„Kommon. Þú varst fullorðinn maður“

Í afsökunarbeiðninni segir Þórður að skrifin hafi verið vandræðaleg, heimskuleg og röng. Margir hafa tekið jákvætt í afsökunarbeiðnina og sumir þeirra farið hörðum orðum um Stefán Einar fyrir að draga fram þessi gömlu skrif. Eftir því sem liðið hefur á morguninn hefur þó tekið að bera meira á neikvæðum ummælum um þetta mál Þórðar Snæs, meðal annars frá fyrrverandi samstarfskonu og samherja hans á Heimildinni, Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritstjóra Heimildarinnar. Ingibjörg tjáir sig um málið undir afsökunarbeiðni Þórðar og einnig á Facebook-síðu sinni. Í ummælum undir færslu Þórðar eiga þau í eftirfarandi orðaskiptum varðandi aldur Þórðar er hann birti þessi vafasömu skrif:

„Maður sem er fæddur árið 1980 er ekki rúmlega tvítugur á árunum 2006 og 2007, heldur 26 og 27 ára. Það er ekki mikil auðmýkt í þessari framsetningu. Á þeim tíma varst þú ekki bara með krullurnar á djamminu heldur einnig að skrifa fréttir í fjölmiðla.“

Þessu svarar Þórður svona:

„Sæl. Færslan sem vitnað er er frá fyrri hluta árs 2004. Ég var ekki starfandi blaðamaður heldur i háskólanámi. Ég var því ekki að skrifa fréttir i fjölmiðla. En ég ber samt sem áður auðvitað fulla àbyrgð á þessum vondu skrifum, og vík mér ekki undan henni. Ég sé þau fyrir það sem þau eru og biðst afsökunar á þeim.“

Ingibjörg kaupir ekki þessar skýringar Þórðar Snæs og segir:

„Þú talar eins og þetta hafi verið ein færsla frá árinu 2004. Færslan um Rannveigu Rist birtist í febrúar 2007, þar sem hún var sögð „daðra við að vera þroskaheft“. Aftur: Þú talar um auðmýkt, en það er erfitt að gera lítið úr og biðjast auðmjúklega afsökunar á sama tíma.“

Ingibjörg birtir síðan eftirfarandi pistil um málið á Facebook-síðu sinni:

„Til eru mismunandi gerðir karlrembu. Sú sem mér hefur þótt einna erfiðast að eiga við og finnst eiginlega verst eru karlarnir sem koma fram sem femínistar. Þeir halda jafnvel sjálfir að þeir séu það en þeir eru bara svo miklu klárari en konurnar í kringum þá. Mín reynsla er sú að þessir karlar eiga auðveldast með að bera virðingu fyrir konum sem rífa kjaft og eru dálítið töff – eins og strákarnir. Eða eru þeirra.“

Segir hann hafa verið fullorðinn, virðulegan blaðamann

Meðal þeirra sem fara hörðum orðum um þessi gömlu skrif Þórðar Snæs er fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir:

„Kommon. Þú varst fullorðinn maður (þú segir 24 en mogginn 27!) þegar þú lést þessi ummæli falla. Enginn vitskertur unglingur. Virðulegur blaðamaður á 24 stundum á daginn og einhver sorapenni sem fyrirlítur konur á kvöldin?

Ég var sjálf ung kona í blaðamennsku á sama aldri, 22 ára, og komin með nógu mikinn þroska og vit til að drulla ekki nafnlaust yfir fólk þegar vinnudeginum lauk. Þetta snýst líka um heilindi í starfi,” sagði Snærós og bætti við að ummæli hans væru í engu ólík þeim sem birtast á helstu incel-spjallrásum netsins.

Segir Þórð Snæ hafa logið til um skrifin áður

Í dálki sínum Orðrómur á vef Mannlífs bendir Reynir Traustason á að Þórður Snær hafi áður þrætt fyrir skrif sín um Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan, en Þórður sagði hana vera þroskahefta. Reynir segir að Þórður Snæ sé núna orðinn dragbítur á fylgi Samfylkingarinnar og mál hans setji formanninn, Kristrúnu Frostadóttur, í mikinn vanda:

„Uppljóstranir Moggans um meint kvenhatur Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda Samfylkingar, eru áfall fyrir Kristrúnu Frostadóttur formann. Þórður Snær gengst við kvenfyrirlitningu undir nafnleysi. Hann laug á sínum tíma opinberlega og þrætti fyrir að hafa ýjað að því að Rannveig Rist álforstjóri  væri þroskaheft en játaði í Spursmáli Moggans.

Þórður er þriðji maður á lista Samfylkingar í Reykjavík suður þar sem Kristrún er leiðtogi. Í öðru sæti er sá umdeildi Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri. Nú virðist komið á daginn að báðir eru þeir dragbítar á gengi flokksins og eiga hugsanlega eftir að verða dýrkeyptir þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Það er krísa í flokknum.

Þórður baðst í nótt afsökunar á því að hafa hrakyrt konur og segist vera orðinn betri maður. Hann er á brún hengiflugsins um að þurfa að segja sig frá framboðinu. Hann fær mikinn stuðning við iðrunarfærslu sína á Facebook og Mogganum er úthúðað fyrir að fletta ofan af svívirðunni.

Vandinn er aftur á móti sá að syndir ritstjórans fyrrverandi gætu verið  fleiri og hann þarf nú að treysta á vini sína á fjölmiðlum um að mynda um sig skjaldborg. Og það er jú þekkt að fjölmiðlar standa sumir hverjir saman á ögurstundu …“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Viktoría komin inn á gistiheimili í Tbilisi en allt í óvissu – „Það átti bara að dömpa henni út af Schengen-svæðinu“

Viktoría komin inn á gistiheimili í Tbilisi en allt í óvissu – „Það átti bara að dömpa henni út af Schengen-svæðinu“
Fréttir
Í gær

Ólafur varar við samstarfi við Ingu Sæland – „Krefst árásar á félagsmenn lífeyrissjóða“

Ólafur varar við samstarfi við Ingu Sæland – „Krefst árásar á félagsmenn lífeyrissjóða“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta hefur þjóðin að segja um ákvörðun Bjarna – „Húrra, húrra“ – „Síðasti séns fyrir Bjarna að senda fokkmerki til þjóðarinnar“

Þetta hefur þjóðin að segja um ákvörðun Bjarna – „Húrra, húrra“ – „Síðasti séns fyrir Bjarna að senda fokkmerki til þjóðarinnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Örvæntingarfull leit að lottóvinningshafa – Milljarðar renna honum úr greipum á laugardag

Örvæntingarfull leit að lottóvinningshafa – Milljarðar renna honum úr greipum á laugardag