„Slíkt rof á skólagöngu barna hefur mikil áhrif, ekki bara á hefðbundið nám nemenda, heldur getur það haft veruleg neikvæð félagsleg áhrif,“ segir í ályktun sem stjórn foreldrafélags Laugalækjarskóla hefur sent frá sér.
Í ályktuninni er vísað í yfirlýsingu sem umboðsmaður barna sendi frá sér vegna verkfallsins þar sem fram kom að þó verkfallsrétturinn sé óumdeildur verði ekki litið fram hjá því að börn séu skólaskyld og þau eigi stjórnarskrárvarinn rétt til menntunar og fræðslu. Er það mat umboðsmanns að börnum í þeim skólum sem eru í verkfalli sé mismunað hvað varðar rétt þeirra til menntunar.
„Við foreldrar deilum áhyggjum umboðsmanns barna og finnum sterkt fyrir því að það umrót sem nú er í lífi barnanna okkar hefur neikvæð áhrif. Við krefjumst þess að deilan verði leyst strax. Við áréttum að sveitarfélög bera ábyrgð á að veita börnum menntun og þurfa að tryggja jafnan rétt til náms með öllum hætti. Við tökum undir með umboðsmanni barna að það er sjálfsögð krafa að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé fylgt. Í því felst meðal annars að lagt verði mat á áhrif þessara aðgerða á börnin og gripið til mótvægisaðgerða þeim til heilla,“ segir í ályktuninni.
Þá kemur fram að undanfarið hafi birst greinileg merki neikvæðrar þróunar sem tengjast áhættuhegðun og félagslegu umhverfi barna. Margir aðilar sem styðji börn á Íslandi, svo sem kennarar, skólastjórnendur, foreldrar og starfsfólk félagsmiðstöðva séu byrjaðir að grípa til aðgerða en nú séu blikur á lofti.
„Við foreldrar finnum mjög vel fyrir því að félagslegt umhverfi unglinga er viðkvæmt um þessar mundir og það hefur mjög neikvæð áhrif á unglinga að upplifa þann losarabrag og reiðileysi sem fylgir rofi á skólagöngu og rútínu hversdagsins. Leitandi og áhrifagjörn ungmenni geta á skömmum tíma umturnað lífi sínu og misst fótanna. Það umrót sem nú er á lífi unglinga hefur því ekki bara neikvæð áhrif á hefðbundið nám, heldur ekki síður félagsleg áhrif sem geta verið gríðarlega alvarleg. Við hvetjum yfirvöld skóla- og frístundamála hjá Reykjavíkurborg að bregðast strax við og auka félagslegan stuðning og uppbyggilegt frístundastarf á meðan á verkfalli stendur.“
Þá segir í ályktuninni að stjórn foreldrafélagsins geri sér grein fyrir því að verkfallsaðgerðirnar séu vegna þess að ekki hafi náðast samningar á milli Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Það er gríðarlega mikilvægt að skólarnir okkar geti laðað til sín öflugt og áhugasamt starfsfólk og þar þurfa að vera í boði samkeppnishæf kjör og góðar starfsaðstæður. Skólastjórnendur hafa lýst yfir áhyggjum af því að erfitt sé að fá fagmenntaða kennara til starfa í skólum landsins og því er mjög mikilvægt að bæta úr. Við foreldrar upplifum að verkfallið veki litla athygli í samfélaginu og hafi þar með ekki þau tilætluðu áhrif að skapa nægilega neyð og þrýsting á samningsaðila. En við, fjölskyldur barnanna, upplifum þessa neyð. Okkar ákall er skýrt. Börn eiga jafnan rétt til menntunar og sveitarfélögum ber að tryggja þann rétt. Leysið kjaradeiluna strax.“