fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fréttir

Tryggvi Rafn er maðurinn sem birti einkaskilaboð frá Kristrúnu – „Það var ekki ætlunin að koma neinum í vandræði“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 29. október 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kom Grafarvogsbúanum Tryggva Rafni Tómassyni í opna skjöldu þegar hann varð skyndilega að fréttaefni í nær öllum fjölmiðlum um helgina, í kjölfar þess að hann birti einkaskilaboð í spjalli við formann Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur.

Tryggvi útskýrir málið í viðtali við DV í dag en hann staðhæfir að ekki hafi vakað fyrir honum að koma Kristrúnu í vandræði. Ljóst er hins vegar að Tryggvi hefur stórlega vanmetið áhrif þess að birta eldfim skilaboð á samfélagsmiðlum en skilaboðin voru innlegg í umræðu í Facebook-hópnum Íbúar í Grafarvogi. „Það var aldrei ætlunin að koma neinum í vandræði,“ segir Tryggvi.

Tryggvi Rafn Tómasson

Tryggvi hefur í undanförnum kosningum kosið Flokk fólksins og segist ætla að gera það í kosningunum í lok nóvember, en hann nálgaðist Kristrúnu vegna þess að hann var að hugsa um að kjósa Samfylkinguna, enda er hann hrifinn af Kristrúnu sem leiðtoga. Hins vegar er hann óánægður með Dag B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra, og þar stóð hnífurinn í kúnni.

Skilaboðin frá Kristrúnu til Tryggva:

Sæll og blessaður Tryggvi og takk fyrir að hafa samband

Ég er formaður flokksins og stýri málefnaáherslum með stjórn flokksins. Dagur verður óbreyttur þingmaður, ekki ráðherra, hann situr ekki í stjórn flokksins og mun ekki sitja í ríkisstjórn. Í stórum breiðum flokki sem S er og þarf að vera til að leiða raunverulegar breytingar veljast alltaf inn einhverjir einstaklingar sem kjósendur hafa skiptar skoðanir á. Þannig hefur lýðræðið alltaf virkað.

En ég skil vel sjónarmið fólks sem vill ekki hafa hann og ef þú býrð og kýst í Reykjavíkur norður þar sem ég er oddviti og hann er í öðru sæti þá liggur beinast við að strika hann út í kjörklefanum. Ég bið þig að líta á heildarmyndina, áherslurnar sem ég hef barist fyrir undanfarin ár í húsnæðis-, efnahags- og heilbrigðismálum. Auðlindamálum. Það eru áherslurnar sem munu einkenna S í ríkisstjórn, ekki hvað borgin hefur gert. Dagur stýrir ekki S, ég geri það. Hann þarf að fylgja forystunni.

Við erum í dauðafæri til að leiða raunverulegar breytingar á samfélaginu. Við megum ekki láta einn mann útiloka það – hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni. Staða hans á listanum breytir engu um áherslur S og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu sem borgin hefur gert.

Það hefur orðið gífurleg endurnýjun á listum S heilt yfir! Nú reynir á okkur í S að sýna og sanna hvar við stöndum og við séum traustsins verð á næstu vikum. Hvet þig til að fylgjast með og gefa þessu tækifæri.

Áfram gakk! Kristrún

„Þetta kom mér gjörsamlega í opna skjöldu“

Tryggvi útskýrir málið fyrir blaðamanni DV:

„Þetta var spjall sem ég átti við hana. Ég skrifaði henni og ég sagði við hana að hún væri það sem Ísland þyrfti. Frá því að Bjarni Benediktsson ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu þá hafi ég ákveðið að kjósa Samfylkinguna. En svo sagði ég við hana að ef Dagur yrði í framboði þá myndi ég ekki kjósa hann. Ég náttúrulega bý í Grafarvogi og hér er fólk óánægt með Dag. Það kom mér algjörlega á óvart að hún sendi mér þetta. En skilaboðin birti ég í lokuðum Facebook-hópi Grafarvogsbúa. Þar var ein kona að segjast ekki ætla að kjósa Dag og væri bara óhress með Dag. Þessi skilaboð birti ég sem innlegg inn í umræðuna. Þetta átti ekki að fara lengra.“

Tryggvi segist hafa átt sér einskis ills von þegar fjölmiðlafárið upphófst um helgina:

„Rétt eftir sex á laugardagskvöldið þá byrja fjölmiðlar að hafa samband, fyrst Vísir og svo Mbl. Þá er ég bara úti að borða á veitingastað, fer ég inn á fréttamiðil og þá sé ég að þetta er komið út um allt. Þetta kom mér gjörsamlega í opna skjöldu því þetta var bara eitthvað svona spjall, þetta átti aldrei að fara lengra.“

Er hvorki ánægður né óánægður með svar Kristrúnar

Ljóst er að svar Kristrúnar til Tryggva hefur ekki sannfært hann um að kjósa Samfylkinguna og segist hann aðspurður ákveðinn í að halda sig við Flokk fólksins í kosningunum. „Ég er hvorki ánægður né óánægður með svörin hennar en þetta kom mér á óvart,“ segir Tryggvi og á þar við að hann átti ekki von á hún talaði með svo bersöglum hætti um Dag og væntanlegt hlutverk hans í flokknum. Kristrún kallaði Dag aukaleikara, benti Tryggva á að hann gæti strikað hann út og fullyrti að Dagur yrði ekki ráðherra í væntanlegri ríkisstjórn.

Varðandi óánægju með Dag þá segir Tryggvi hana meðal annars stafa af áformum borgarstjórnarmeirihlutans um þéttingu byggðar í Grafarvogi. Fleira kemur þó til. Tryggvi segir:

„Þegar fylgi Samfylkingar í borginni minnkar úr 32% árið 2014 niður i 20,9% árið 2022 þá er það vísbending um að kjósendur séu að hafna Degi.“

Hann nefnir einnig til sögunnar óánægju með meirihlutann vegna framkomu bílastæðasjóðs við sig, og segir þessa sögu frá liðnu sumri:

„Ég lenti nú bara í því í sumar að ég átti erindi á Landspítalann en ég er með hreyfihömlun, og legg þarna fyrir utan Landspítalann og er þarna fárveikur að leita mér læknisaðstoðar. Og þegar ég er búinn að vera inni á Landspítalanum í sex mínútur þá fæ ég 20 þúsund króna sekt fyrir að leggja í stæði hreyfihamlaðra með útrunnið bílastæðakort fyrir hreyfihamlaða. Þegar ég hringi í borgina út af þessu þá mætir mér ekkert annað en hroki og dónaskapur. Ég geri athugasemdir við álagninguna en ég fæ bara þau svör að hún eigi fyllilega rétt á sér og bílastæðastjóður geti ekki verið að snúast í hreyfihömlun fólks. Sektin standi og ef ég sé óánægður geti ég bara kvartað til umboðsmanns.“

Óánægja Tryggva með Dag á sér því ýmsar ástæður en þær tengjast allar óánægju með stjórn og starfsemi borgarinnar og stjórnarmeirihlutans þar.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnar Þór bendir á „ógeðfellda“ staðreynd um arðsemi bankanna

Ragnar Þór bendir á „ógeðfellda“ staðreynd um arðsemi bankanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hildur skýtur fast á Hallgrím: „Út í hött að smætta og afbaka þessa umræðu á þennan hátt“

Hildur skýtur fast á Hallgrím: „Út í hött að smætta og afbaka þessa umræðu á þennan hátt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bjarni skar út „hryllilegasta“ grasker í heimi – Sjáðu hvað stóð á því

Bjarni skar út „hryllilegasta“ grasker í heimi – Sjáðu hvað stóð á því