fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Fréttir

Dagbókarskrif Ólafs Ragnars vekja athygli: „Guðs lukka að hann hafi verið forseti þegar Davíð óð upp í frekju sinni“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 1. október 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skrif Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands, um Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa vakið nokkurt umtal á samfélagsmiðlum.

Greint var frá því í gær að Ólafur Ragnar hefði tekið saman brot úr dagbókum sem hann hélt meðan deilurnar um fjölmiðlalögin og Icesave stóðu sem hæst. Birtast dagbókarbrotin í nýrri bók Ólafs, Þjóðin og valdið: Fjölmiðlalögin og Icesave, sem kemur út í dag.

Árið 2004 gerðist það í fyrsta sinn að forseti vísaði lögum frá Alþingi í þjóðaratkvæði þegar Ólafur Ragnar  neitaði að undirrita fjölmiðlalögin. Til hennar kom þó aldrei því eftir miklar deilur um málefnið um sumarið varð niðurstaðan sú að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fékk lögin felld úr gildi á Alþingi. Davíð var á þessum tíma forsætisráðherra og í skrifum Ólafs birtist hugur hans til Davíðs á þessum tíma, til dæmis í kafla frá 22. maí 2004.

Ólafur Ragnar fer hörðum orðum um Davíð – „Heiftin og löngunin til að sýna valdið hefur knúið hann áfram“

„Atburðarásin verið ótrúleg – og óþörf ef Davíð Oddsson (DO) og ríkisstjórnin hefðu viljað taka skynsamlega á málum. Heiftin og löngunin til að sýna valdið hefur knúið hann áfram og svo ógnar hann öllum öðrum í sínu liði. Það er hans stíll. Því hef ég kynnst. Allt stefnir í mikla krísu og ég verð að taka örlagaþrungnar ákvarðanir,“ sagði hann meðal annars og bætti svo við síðar:

„Samtal mitt við DO hér á Bessastöðum 17. maí sýndi mér ótvírætt að hann virðir ekki lengur neinar stjórnarfarsreglur eða siðalögmál; er með puttana í lögreglu- og skattarannsóknum, hótar, er með dylgjur, ósvífni, nánast eins og í þriðja heims landi þar sem valdið og ógnin ráða öllu, lán að hann hefur ekki her eða leynilögreglu til að beita. Hugsar og hegðar sér eins og fasisti, valdið réttlætir allt.“

Egill Helgason fjölmiðlamaður birti stutta færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði einfaldlega: „Hér c stuð.“ Deildi hann broti úr skrifum Ólafs með færslunni. „Magnað,“ sagði sagnfræðingurinn og blaðamaðurinn Guðmundur Magnússon í athugasemd. „Vá,“ sagði leikarinn Felix Bergsson í sinni athugasemd.

Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og stofnandi Sósíalistaflokksins, skrifaði einnig færslu um málið í gærkvöldi.

„Með illu skal illt út reka. Mikil guðs lukka að Ólafur Ragnar hafi verið forseti þegar Davíð Oddsson óð upp í frekju sinni og fékk Alþingi til að samþykkja delluhugmyndir sínar í sturluðum hefndarleiðangri. Þarna kemur fram að Davíð, Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir flokkar sem þjóna honum virða engar reglur lýðræðisins, vaða yfir allt sem valdaránsfólk og mafía.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt