Í umfjöllun blaðsins er bent á að Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían hafi tilkynnt í lok síðasta árs að breytingar yrðu gerðar í þá veru að kvikmyndaverðlaun og sjónvarpsverðlaun yrðu afhent í sitthvoru lagi. Í frétt sem birtist á vef Eddunnar í desember í fyrra kom fram að fyrirkomulag sjónvarpsverðlauna yrði „kynnt innan tíðar“ en gert væri ráð fyrir að sú verðlaunaafhending færi fram haustið 2024.
Í frétt Morgunblaðsins kemur hins vegar fram að ekkert hafi frést af þessum verðlaunum og óþreyju sé farið að gæta meðal sjónvarpsfólks. Bent er á að kvikmyndaverðlaunin hafi verið afhent í apríl síðastliðnum.
Morgunblaðið hefur eftir Ingibjörgu Grétu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, að von sé á tíðindum af fyrirkomulagi sjónvarpsverðlauna innan skamms. Sjónvarpsstöðvarnar hafi ákveðið að vinna sjálfar að sjónvarpsverðlaunum og beðið sé eftir staðfestingu frá þeim varðandi fyrirkomulag og tímasetningu.