Erlendur maður var í morgun sakfelldur fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrir samtals átta brot sem framin voru í sumar.
Í fyrsta lagi gerðist hann sekur um að stel bíl á Fálkagötu í Reykjavík og ók hann bílnum um götur höfuðborgarsvæðisins uns lögregla hafði afskipti af honum í Bólstaðahlíð.
Í öðru lagi var hann sakfelldur fyrir þjófnað á gistiheimili í Reykjavík en hann stal grænum Cargo-buxum og seðlaveski sem innihélt greiðslukort og bréf um tilkynningarskyldu.
Í þriðja lagi var maðurinn ákærður fyrir eignaspjöll og húsbrot með því að hafa í júní í sumar ruðst heimildarlaust inn í skip sem var við höfn í Reykjavík, neitað að yfirgefa skipið þegar hann var krafinn um það og valdið skemmdum á neyðarbauju með því að taka baujuna úr plastboxi með þeim afleiðingum að ekki var hægt að nota hana aftur.
Í fjórða lagi var maðurinn sakaður um eignaspjöll, húsbrot og fíkniefnalagabrot eð því að hafa í júní í sumar með múrstein í hendi brotið rúður í húsnæði að Laugavegi og ruðst þar heimildarlaust inn. Er lögregla hafði afskipti af honum fann hún á honum lítilsháttar magn af amfetamíni.
Maðurinn var auk þess sakaður um umferðarlagabrot og fleiri skemmdarverk, meðal annars skemmdarverk á bíl.
Fyrir dómi játaði maðurinn sekt sína í öllum ákæruliðum og var það virt til refsilækkunar. Var hann dæmdur í fjögura mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var dæmdur til að greiða hátt í 1,7 milljónir króna í málskostnað.