

Helgi er okkar helsti fræðimaður um jökla og hann er gagnrýninn á að boðið sé upp á íshellaferðir yfir sumartímann.
Helgi bendir á að íshellar myndist þar sem ár koma undan jökli og göngin stækki stöðugt þegar líður á sumarið.
„Það er hins vegar þannig að þegar hættir að renna vatn um þá og komið er haust þá standa þessi göng opin og þá er kannski hægt að fara þarna inn og þannig hafa nú þessar ferðir verið til að skoða þessa íshella. Til skamms tíma var þetta bara gert á haustin, í október eða nóvember þegar bráðnun er búin og komin svona kyrrð yfir þetta og leysingar búnar,“ segir Helgi við Morgunblaðið og bendir á að hellarnir séu stöðugt að breytast yfir sumartímann.
„Þeir verða til frá vori og yfir sumarið og eru þá stöðugt að breytast og stækka og mikið um að vera í jöklinum. Hann er á meiri hreyfingu og að ryðjast fram og það getur þá verið varhugavert að vera að flækjast þarna inni í þessum íshellum,“ segir Helgi.