

Leitarhópar náðu tveimur undan farginu í gær og var annar þeirra úrskurðaður látinn á vettvangi en hinn var fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík. Um var að ræða 25 manna hóp ferðamanna af ýmsum þjóðernum.
RÚV greinir frá því að fyrsti hópur leitarmanna hafi verið kominn upp á jökulinn snemma í morgun eftir að leit var frestað í gærkvöldi.
RÚV ræddi í gær við ferðamann sem var nýkominn út úr hellinum í gær þegar hrunið var. Hann sagði að hellirinn væri ekki ýkja djúpur, eða 3-5 metrar, og virðist hrunið hafa átt sér stað um 10 mínútum eftir að hans hópur fór út. Segir hann hópinn hafa heyrt drunur en ekki hugsað meira út í málið fyrr en komið var upp á hótel og fréttir af slysinu fóru að berast.
Margir af stærstu fjölmiðlum heims hafa fjallað um slysið í Breiðamerkurjökli í gær og er fréttin til dæmis ein sú efsta á vefsíðum BBC og Guardian nú í morgunsárið.