Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, þykir hafa verið nokkuð klaufalegur í framgöngu sinni á opinberum vettvangi að undanförnu. Hann og eiginkona hans, Akdshata Murty, eru talin vera ríkustu hjón sem nokkurn tíma hafa búið í Downingstræti 10, bústað breska forsætisráðherrans.
Þegar Sunak var nýlega spurður að því í sjónvarpsviðtali hvort hann gæti sett sig í spor stritandi almúgans vegna ríkidæmis síns þá hélt hann því fram að henn hefði orðið að neita sér um margt í æsku, til dæmis hafi fjölskyldan aldrei haft efni á áskrift að Sky-sjónvarpsstöðinni.
Þessi ummæli hafa verið tilefni til háðulegra ummæla og umfjöllunar um forsætisráðherrann í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Vitað er að Sunak gekk í dýra einkaskóla í æsku.
Daily Mirror hefur nú birt grein um æskuheimili forsætisráðherrans og upplýst að þar séu sex svefnherbergi og stórt tómstundaherbergi. Ennfremur séu þar svalir á báðum langhliðum hússins. Einnig sé tvöfaldur bílskúr við húsið, sem er staðsett í Southampton. Húsið ber þess ekki merki að þeir sem þar búa eða hafa búið séu fólk sem þarf að neita sér um margt og ströggla í gegnum dagana vegna peningaleysis.
Rishi Sunak hefur boðað til þingkosninga í Bretlandi í kjölfar slæmrar útreiðar Íhaldsflokksins í kosningum til Evrópuþingsins sem fóru fram fyrir skömmu.