fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Fréttir

Dagur og Hildur tókust á um bensínstöðvalóðirnar – „Fullkomin vanhæfni, ábyrgðarleysi, fúsk og kæruleysi“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 5. maí 2024 18:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umtöluðustu samningar vikunnar eru efalaust þeir sem borgin gerði við olíufélögin árið 2021 um svokallaðar bensínstöðvarlóðir. Til stóð að fjalla um samningana í fréttaskýringu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur í Kveik. Ritstjóri Kveiks hafnaði því þó að birta umfjöllunina og sagði hæfileika Maríu Sigrúnar liggja á öðrum sviðum en í rannsóknarblaðamennsku. Var þá greint frá því að María Sigrún yrði ekki hluti ritstjórnar Kveiks þegar fréttaskýringarþátturinn snýr aftur í haust.

Þetta vakti tortryggni almennings sem krafðist upplýsinga um fyrirhuguð efnistök Maríu Sigrúnar og skýringar RÚV á því að stöðva birtinguna. Þegar afhjúpað var að það væru bensínstöðvalóðir borgarinnar sem voru andlag fréttaskýringar krafðist almenningur svara um hverra hagsmunir stóðu í vegi fyrir birtingu. Fyrir helgi greindi María Sigrún frá því að umfjöllun hennar yrði birt í fullri lengd í Kastljósi á mánudag, en ekki er ljóst hvort slíkt hafi staðið til frá öndverðu eða hvort RÚV sé að svara þrýstingi.

Samningsmarkmið samþykkt við mikinn fögnuð allra

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, var borgarstjóri þegar þessir samningar voru gerðir. Hann mætti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Hildi Björnsdóttur, í Sprengisand í morgun þar sem hann furðaði sig á umræðunni. Hér væri ekkert misjafnt á ferðinni heldur samningar sem grundvölluðust í mikilli sátt borgarfulltrúa, þvert á flokka. Nú fyrir óskiljanlegar ástæður reyni minnihlutinn að gera samninganna tortryggilega þrátt fyrir að hafa í engu brugðist við þegar samningarnir voru samþykktir á sínum tíma.

Dagur rekur málið allt aftur til ársins 2009, þegar Sjálfstæðisflokkur var í meirihluta. Þá var samþykkt stefna um að fækka bensínstöðvum í borginni enda óvenjumargar miðað við höfðatölu. Lítið hafi þó þokast í þessum málum þar til borgarstjórn samþykkti loftlagsstefnu árið 2016 og ákvað þá að búa til hvata til að fá olíufélögin til að fjarlægja bensínstöðvar sínar. Hópur sérfræðinga hafi ráðist í vinnuna að finna út hvers konar hvatar væru til þess fallnir að ná fram þessu markmiði – að fækka bensínstöðvum. Niðurstaðan var að bjóða olíufélögunum að sleppa þeim við svokölluð viðbótargjöld, innviðagjald og byggingargjald.

Samningsmarkmið voru kynnt borgarfulltrúum árið 2019 og samþykktu þau allir við mikinn fögnuð. Nú sé komið annað hljóð í minnihlutann sem freisti þess að gera samninganna tortryggilega.

Tóku ekki fram að um örlætisgerning væri að ræða

Hildur tók undir að samningsmarkmiðum hafi verið fagnað og vissulega hafi Sjálfstæðisflokkurinn hvatt til þess að stefna á að ná markmiðum fyrr en ella og auka umfangið. Hins vegar hafi samningsmarkið ekki borið með sér að til stæði að framkvæma umfangsmikinn gjafagerning til olíufélaganna.

Þegar samningar voru loks kynntir árið 2021 hafi það verið gert í sumarfríi, en slík sé lenskan þegar eigi að keyra í gegn umdeild mál þar sem færri augu eru á borgarstjórn á þeim árstíma. Gögn hafi verið send borgarfulltrúum seint og síðar meir, um var að ræða stóran gagnapakka og ekki gafst færi til að kynna sér hann með fullnægjandi hætti. Samningurinn beri ekki með sér það örlæti sem nú hafi komið í ljós. Mögulega megi lesa það milli línanna, en bara ef fólk viti hverju það leitar að, sem Hildur vissi ekki sjálf á þeim tíma.

Hildur bendir á að nú hafi olíufélögin selt byggingarrétt í um 75 prósent tilvika til verktaka eða fasteignafélaga. Söluverðmæti þess sem þegar hefur verið selt er um 3 milljarðar og megi ætla að heildarvirði bensínstöðvalóðanna sé um fjórir milljarðar. Það geti enginn deilt um að það hefði verið gott fyrir borgina að fá þessa milljarða í vasann.

Hagkvæmt að fella niður gjöld til að hraða uppbyggingu

Dagur rekur að viðbótargjöldin, innviðagjald og byggingargjald, hafi verið felld niður til að hvetja olíufélögin til hreyfings. Að baki þessu liggi fjárhagslegt mat þar sem uppbygging á þessum lóðum þýði fleiri útsvarsgreiðendur og þar sem um þéttingarreiti er að ræða þá sé mun minna innviðagjald á hverja íbúð.

„Þegar við erum að þétta byggð þarf borgin vissuleg að hugsa fyrir innviðum, eins og skólum og leikskólum, en það eru um það bil fimm milljónir á íbúð. Í nýju úthverfi er það um 24 milljónir á íbúð. Þannig við höfum mikla fjárhagslega hvata til að þétta byggð þar sem ekki þarf að ráðast í innviði.“

Dagur bendir á að einkenni þéttingareita sé að þar þurfi að hugsa minna að gatnagerð og allar veitur séu þegar til staðar. Hefði borgin leyst lóðirnar til sín þegar lóðarleigusamningar runnu út hefði það tafið uppbyggingu og þar með beðið lengur eftir auknum tekjum í formi útsvars nýrra íbúa. Það sé eins í hag íbúa að losna við umferðina sem fylgir bensínstöðvunum.

Ekki spilling, bara fúsk

Hildur benti á móti á að t.d. í Vesturbænum séu núverandi innviðir þegar sprungnir. Nú eigi að þétta þar enn meira þó svo að leikskólar og skólar í hverfinu þoli ekki núverandi aðstæður.

„Ég er ekki að hrópa hérna, spilling, spilling, eða segja að það séu annarlegir hagsmunir eða hvatir sem liggja að baki þessum samningum. Það sem mér þykir blasa við er bara fullkomin vanhæfni, ábyrgðarleysi, fúsk og kæruleysi þegar kemur að því að sýsla með eigur almennings.“

Eðlilegra hefði verið að selja lóðirnar á markaðsvirði. Það sé ljóst að olíufélögin hafi fengið óvenjugóð kjör í þessum samningum.

„Ég hef nokkuð ábyrgar heimildir fyrir því að þegar aðilar gengu til samninga við borgina hafi þá rekið í rogastans þegar þeir setjast niður við samningsaborðið og átta sig á því að fyrsta boð frá borginni var betra en nokkrum hefði getað látið sig dreyma um.“

Hildur segir ljóst að meirihlutinn í borginni sé ekkert sérstaklega góður í samningagerð. Vísaði hún til dæmis til Braggamálsins og tók fram að að henni þyki meirihlutinn stunda ábyrgðarleysi og fúsk þegar hann semur fyrir borgarbúa.

Sjálfstæðisflokkur nú að fagna því sem þau sögðu ólöglegt

Dagur furðaði sig á stefnubreytingu Sjálfstæðisflokks. Hann hafi harkalega barist gegn þessum viðbótargjöldum á sínum tíma sem flokkurinn taldi ólögleg og fóru með gjaldtökuna fyrir dóm. Borgin hafði fullnaðarsigur í því máli en nú skyndilega sé Sjálfstæðisflokkur helsti vörður þessara sömu gjalda.

Hildur vísaði til ársreikning borgarinnar þar sem komi fram að sala á byggingarrétt hafi skilað borginni 2,7 milljörðum minna í tekjur en áætlað var. Ljóst sé að borgin sé ekki að stuðla að þeirri uppbyggingu sem hún hefur lofað. Markið var sett á 2000 íbúðir á ári en í fyrra voru það 1100 íbúðir og í ár líklega um 800.

Dagur sagði þá: „Mér finnst þetta dálítið ódýr málflutningur satt bestað segja og ekki hægt að vísa til þess að fólk hafi ekki lesið gögnin“. Dagur sagði það koma skýrt fram í gögnunum hvað til standi og hver sem er geti lesið sig í gegnum þau. Hann lofaði að birta gögnin á Facebook og eftir þáttinn stóð hann við það loforð, og vísar þar til samningamarkmiða sem lögð voru fyrir borgarstjórn í maí 2019.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Öryggisverðir fylgja Bjarna hvert fótmál

Öryggisverðir fylgja Bjarna hvert fótmál
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“

Rúnar Hroði gefst ekki upp: „Ég ætla að fara með þetta alla leið“
Fréttir
Í gær

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega

Langveik ung kona fékk liðsauka í barningi sínum við Sjúkratryggingar – Sögð hafa þurft samþykki stofnunarinnar fyrir aðgerð sem læknir sagði nauðsynlega
Fréttir
Í gær

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað

Allir efstu sex forsetaframbjóðendurnir hafa djammað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur segir skemmdarverk framið á íslenskri tungu og nefnir fjölmörg dæmi

Sigmundur segir skemmdarverk framið á íslenskri tungu og nefnir fjölmörg dæmi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mannbjörg varð þegar strandveiðibátur sökk norðvestur af Garðskaga

Mannbjörg varð þegar strandveiðibátur sökk norðvestur af Garðskaga