Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi segir að Kópavogsbær ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar í húsnæðismálum við úthlutun lóða í nýju hverfi á Vatnsenda.
Á fundi bæjarráðs Kópavogs í morgun samþykktu fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að úthluta lóðum undir 184 íbúðir í Vatnsendahvarfi, „þar sem allar lóðirnar verða boðnar út og afhentar hæstbjóðanda. Þetta er fyrsta stóra lóðaúthlutunin í Kópavogi síðan árið 2015. Engar lóðir eru skilyrtar fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði þrátt fyrir skuldbindingar bæjarins þess efnis,“ segir Sigurbjörg Erla.
Vísar hún til þess að kjörnir fulltrúar eiga að starfa á grundvelli laga og samkvæmt stefnumarkandi samþykktum bæjarstjórnar. Samkvæmt lögum um húsnæðismál (44/1998) eru helstu verkefni sveitarfélaga á því sviði að:
1) greina húsnæðisþörf
2) gera áætlun um hvernig þörfinni skal mætt og
3) tryggja framboð á lóðum til að mæta þeim áætlunum.
Í bókun minnihlutans á fundi í morgun kemur fram:
„Í húsnæðisáætlun Kópavogsbæjar hefur þessi greining á þörfum ólíkra hópa verið gerð og þar kemur fram að 35% skattgreiðenda Kópavogsbæjar séu undir tekju- og eignamörkum. Því þyrfti að skipuleggja uppbyggingu með þeim hætti að þriðjungur húsnæðis henti þessum íbúum bæjarins.“
Sigurbjörg segir að húsnæðisáætlunin fjalli um að leitast skuli við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa. Allir geti orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Þá er meðal annars í forgangi að auka framboð á litlum og ódýrum fasteignum, auðvelda fyrstu kaup og fjölga íbúðakostum, til dæmis með samstarfi við byggingaraðila um uppbyggingu minni íbúða.
Meðal markmiða í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, sem og Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040, er fjölbreyttur húsnæðismarkaður sem uppfyllir þarfir íbúa. Huga á sérstaklega að framboði á húsnæði á viðráðanlegu verði. Auk þess var, í sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga, undirritaður rammasamningur til þess að mæta þeim hópi sem hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn, bæði fyrstu kaupendum og tekju- og eignalægri hópnum. Þar er gert ráð fyrir að 30% nýrra íbúða skuli vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði, sem byggðar eru með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum eða uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán.
„Afgreiðsla meirihlutans á úthlutunarskilmálunum tekur ekkert mið af þessum skuldbindingum og markmiðum, sem byggjast á þeirri reynslu að markaðurinn hefur ekki getað leyst þær fjölbreyttu þarfir sem ungir, tekjulágir, námsmenn og fleiri hópar samfélagsins hafa. Kópavogsbær hefur ekki staðið að almennri lóðaúthlutun í níu ár en því miður tapast hér gullið tækifæri til að leiðrétta þá skekkju, sem orðið hefur með uppbyggingu fjárfesta á þróunarreitum þar sem arðsemiskrafa er leiðarljósið,“ segir Sigurbjörg.
„Það er svívirðilegt að næststærsta sveitarfélag landsins skili endurtekið auðu þegar kemur að húsnæði fyrir tekju- og eignaminna fólk!“
Hér má sjá minnisblað frá bæjarlögmanni um skuldbindingar sveitarfélagsins í húsnæðismálum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigurbjörg gagnrýnir lóðaúthlutanir i Kópavogsbæ. Í september í fyrra sakaði hún Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra, um að færa einum ríkustu systkinum landsins lúxuslóðir á silfurfati án útboðs. Um var að ræða reit á Kársnesi sem nefndur hefur verið Reitur 13 en þeim var úthlutað til fyrirtækisins Fjallasól sem er í eigu eigu MATA-systkinanna, Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna, sem hafa meðal annars vakið athygli fyrir eignarhald sitt á Ölmu leigufélagi sem ítrekað hefur ratað í fréttir fjölmiðla fyrir gífurlegar hækkanir á leiguverði.
Sjá einnig: Segir auglýsingu á samkomulagi hafa verið senda út áður en bæjarráð samþykkti gjörning bæjarstjóra