Mennirnir höfðu allir látið reyna á herkvaðninguna fyrir dómstólum en án árangurs. Þeir voru því sendir gegn vilja sínum til Luhansk í austurhluta Úkraínu. En kvöldið sem þeir komu að víglínunni ákváðu þeir að flýja aftur heim til Rússlands.
Þeir komu við í búð þar sem þeir gátu keypt sér fatnað til að skipta einkennisfatnaðinum út. Því næst húkkuðu þeir sér far til Moskvu.
Þegar þangað var komið áttuðu þeir sig á að þeir gátu ekki farið heim til sín, en þeir eru frá Kalíníngrad, og gáfu þeir sig því fram við lögregluna og afhentu vopn sín.
Margir þeirra höfðu fengið gömul vopn, framleidd á áttunda áratugnum, og lítið af skotfærum. Við nánari skoðun reyndist byssa eins þeirra vera óvirk.
En að mati herdómstóls réttlætti þetta ekki liðhlaup þeirra.
Projekt, sem er óháður rússneskur rannsóknarmiðill, skýrir frá þessu og byggir á dómskjölum. Þau sýna að mennirnir voru dæmdir í 6,5 til 7 ára vistar í fangabúðum.
Því fer víðs fjarri að þetta séu einu rússnesku hermennirnir sem hafa reynt að komast hjá því að berjast í Úkraínu.
Frá upphafi innrásarinnar fyrir rétt rúmum tveimur árum hafa rúmlega 4.600 rússneskir hermenn verið dæmdir fyrir að neita að berjast. Þeir hafa gerst liðhlaupar, yfirgefið hersveitir sínar, neitað að hlýða fyrirskipunum eða gert sér upp veikindi.
Mikil aukning varð í þessum málum á síðasta ári en þá voru rúmlega 4.800 slík mál skráð.
Haustið 2022 voru gerðar lagabreytingar sem þyngdu refsingar fyrir liðhlaup og er hámarksrefsingin nú 15 ára vist í fangabúðum.