Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan samkomustað á Upper East Side og voru ýmis hróp gerð að skemmtikraftinum.
„Þú styður þjóðarmorð,“ var meðal annars hrópað að Jerry sem heimsótti Ísrael fyrir síðustu jól þar sem hann tók þátt í herferð sem hvatti til þess að hryðjuverkamenn Hamas slepptu ísraelskum gíslum úr haldi.
Mótmælin virtust ekki hafa mikil áhrif á Seinfeld sem brosti sínu breiðasta áður en hann hoppaði inn í bíl, umkringdur lögreglumönnum sem gættu öryggis hans.
Jerry var viðstaddur samkomu þar sem sem blaðakonan og pistlahöfundurinn Bari Weiss hélt meðal annars erindi, en hún er dyggur stuðningsmaður Ísraels.
Beindust mótmælin ekki síður að henni en henni hefur verið kennt um dauða Refaat Alareer, ljóðskálds og prófessors frá Palestínu, sem lést í loftárás Ísraelshers á Gaza í desember síðastliðnum. Alareer hafði birt tíst í október síðastliðnum þar sem hann sagði að ef hann yrði drepinn væri hægt að kenna fólki eins og Bari Weiss um það.
Tveir einstaklingar voru handteknir á mótmælunum í gærkvöldi, að því er fram kemur á vef New York Post.