Hér áður fyrr voru þýskir stjórnmálamenn alfarið á móti því að her landsins yrðu efldur og vildu aðeins heimila algjör lágmarksframlög til hersins. En nú hefur þýska þingið samþykkt hæstu fjárframlög til hersins síðan 1992, í raun hæstu framlög sögunnar. Á þessu ári ætla Þjóðverjar að nota 72 milljarða evra í varnarmál, þetta svarar til tæplega 11.000 milljarða króna.
„Við neyðumst ekki bara til að aðstoða Úkraínu við að verjast, þetta þjónar einnig langtíma varnarmálahagsmunum okkar,“ sagði Olaf Scholz, kanslari, þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að nýrri skotfæraverksmiðju í vesturhluta Þýskalands, í síðustu viku.
Þjóðverjar eru hlynntir þessum miklu útgjöldum til varnarmála ef marka má niðurstöðu nýrrar könnunar sem PwC gerði um málið. Sögðust 68% aðspurðra styðja þessa ákvörðun.
Það er athyglisvert að Þjóðverjar séu reiðubúnir til að verja svo miklu fé til varnarmála á sama tíma og þeir glíma við efnahagsvanda. Þýska hagkerfið dróst saman á síðasta ári á sama tíma og hagkerfi annarra leiðandi þjóða uxu.
En stjórnmálamenn telja ekki að nú sé rétti tíminn til að spara þegar kemur að varnarmálum. Af milljörðunum 72 koma 52 af fjárlögum ársins en restin verður tekin úr sérstökum 100 milljarða evra sjóði sem var settur á laggirnar strax í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Þjóðverjar eru næststærsti stuðningsaðili Úkraínu, aðeins Bandaríkin hafa veitt meira fé til stuðnings landinu.