Eldgs hófst norðan við Sýlingarfell á Reykjanesskaga klukkan 06:00 í morgun. Veðurstofa Íslands sendi frá sér tilkynningu á sjötta tímanum í morgun að kvikuhlaup væri hafið og auknar líkur á eldgosi.
Jarðskjálftavirkni hafði aukist upp úr klukkan fimm í morgun.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Almannavörnum, segir í samtali við DV að eldgosið sé á svipuðum slóðum og gosið sem hófst 18. desember, en heldur sunnar miðað við fyrstu gögn. Upptökin eru fjær Grindavík en í gosinu sem hófst í janúar.
Enginn var í Grindavík þegar gosið hófst, fyrir utan viðbragðsaðila sem eru við lokunarpósta.
Hjördís segir að næst á dagskrá sé að fara í þyrluflug og þá verði hægt að varpa betra ljósi á umfang gossins. Þau gögn sem þar safnast verða sett inn í hraunflæðilíkan sem mun gefa betri mynd af því hvert hraun mun renna haldi gosið áfram næstu daga.