fbpx
Þriðjudagur 03.október 2023
Fréttir

Enn einn maðurinn stígur fram og kærir Ástríði fyrir fjársvik – „Ég var alveg tilbúinn að grafa þessa skömm niður“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 18. september 2023 14:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem óskar nafnleyndar hefur nýlega haft samband við lögreglu og hyggst leggja fram kæru á hendur Ástríði Kristínu Bjarnadóttur vegna meintra fjársvika. Maðurinn segir hana hafa fengið lánað hjá sér, með sviksamlegum hætti, hátt í tvær milljónir króna, frá vori 2019 og fram á árið 2020.

DV hefur fjallað ítarlega um mál barnakennarans Ástríðar Kristínar Bjarnadóttur en hún er grunuð um fjársvik gegn hundruðum karlmanna yfir langt árabil. Stærstan hluta þessa árs hefur lögregla rannsakað sérstaklega mál 11 karlmanna sem varða meint svip upp á samtals um 25 milljónir króna. Ástríður sat í gæsluvarðhaldi lungann úr sumrinu en var látin laus þann 25. ágúst þar sem ekki voru valdheimildir til að hafa hana lengur í gæsluvarðhaldi þar sem ekki er búið að birta henni ákæru. Rannsókn málsins er lokið en það er núna í höndum ákærusviðs lögreglunnar að taka ákvörðun um ákæru.

Sjá einnig: Ástríður er aftur komin á stefnumótaöppin – Grunuð um stórfelld fjársvik gegn einmana körlum í leit að félagsskap

Maðurinn sem er að kæra Ástríði núna segist hafa ákveðið að láta til skarar skríða eftir að hafa lesið fréttir DV um mál hennar. „Það var út af ykkar fréttaflutningi sem ég vissi að þetta væri í ferli hjá lögreglunni og núna mun þetta bætast við.“ – Maðurinn segist hafa glímt við mikla skömm vegna svika Ástríðar við sig og álasað sér fyrir að vera auðtrúa. „Hún er ofboðslega sannfærandi. Maður skammaðist sín fyrir að lenda í þessu og ég var alveg tilbúinn að grafa þá skömm niður. En svo þegar ég sá þessar fréttir þá vissi ég að það var kominn tími til að leysa frá skjóðunni. Ég skal alveg viðurkenna að þessar fréttir hafa triggerað mig nokkuð mikið, þetta er ekki þægilegasta tilfinning í heimi. En það er ekki ykkur að kenna.“

Maðurinn segist hafa kynnst Ástríði á netinu vorið 2019: „Forsaga málsins er sú að vorið 2019 var ég nýfráskilinn og var í talsverðri geðlægð. Ég skráði mig á stefnumótasíður og kynntist henni í gegnum maki.is í apríl. Í fyrstu var þetta viðkunnanleg stelpa að tala við. En fljótlega fór hún að biðja um smá pening, um að ég bjargaði henni fyrir horn. Hún var illa stödd og alveg í  nauðum, hún var með alls konar afsakanir, þetta vatt upp á sig og endaði með því að ég varð fyrir hálfgerðri fjárkúgun frá henni því hún sagði undir rós að ef ég hætti að senda henni pening þá fengi ég aldrei borgað neitt til baka. Hún sagði það ekki berum orðum en það mátti lesa það milli línanna.“

Úr textaskilaboðum frá Ástríði til mannsins.

„Hún var alltaf að fá arf. Fyrst var þetta þannig að hún var, að sögn, að jafna sig eftir fótbrot sem hún varð fyrir í vinnu hjá Kópavogsbæ, og var að bíða eftir bótum. Svo átti hún að fá arf eftir afa sinn en svo breyttist sú saga í fyrra þegar hún var að bíða eftir arfi eftir mömmu sína. Ég herjaði svolítið á hana í fyrra um að hún færi að borga mér til baka, ég var farinn að hóta að fara með þetta í blöðin.“

Maðurinn segir að sá tími þegar hann var að lána Ástríði hafi varað í um ár en eftir það hafa þau átt í stopulum samskiptum þar sem hann freistaði þess að fá greitt til baka frá henni. Hann segist hafa lánað henni samtals hátt í tvær milljónir króna í ótalmörgum smáskömmtum, hæsta einstaka lánið var 30 þúsund krónur. Einu sinni endurgreiddi hún honum 100 þúsund krónur og það hélt lífi í voninni hjá honum um að þetta kæmi til baka þegar hún fengi peningasummuna sem hún sagðist alltaf eiga von á.

Aðspurður segir maðurinn að hann og Ástríður hafi aldrei hist augliti til auglitis en það hafi staðið til í byrjun. Einnig hafi náin kynni hangið á spýtunni en hann hafi fljótlega áttað sig á því að í raun var það aldrei í boði. Enda vakti allt annað fyrir Ástríði.

Rekur bílslys til Ástríðar

„Þetta hafði talsverð fjárhagsleg áhrif á mig og sumarið 2019 var ég orðinn staurblankur. Ég var að vinna sem flutningabílstjóri og fór að taka að mér svo mikla aukavinnu, bara til að eiga í mig og á, að ég átti aldrei frídag. Það endaði með því að ég sofnaði undir stýri og velti bílnum. Þetta varð næstum því banaslys og ég rek það dálítið til hennar.“

Maðurinn segist ekki hafa vitað um spilafíkn Ástríðar fyrr en hann las um hana í fréttum DV. „Ég vissi það fyrst í gegnum fréttirnar að hún væri spilafíkill. Mig var farið að gruna að hún væri fíkniefnaneytandi. En það er ljóst að fyrir utan að vera með spilafíkn á háu stigi þá er hún líka haldin sjúklegri lygasýki,“ segir maðurinn, sem núna er að safna saman gögnum til að leggja fram kæru á hendur Ástríði til lögreglunnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mörg hundruð ökumenn óku of hratt við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu

Mörg hundruð ökumenn óku of hratt við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu
Fréttir
Í gær

Hryðjuverkamálinu vísað frá dómi í annað sinn

Hryðjuverkamálinu vísað frá dómi í annað sinn
Fréttir
Í gær

Boobac Shakur sem veiddi barnaníðinga skotinn til bana

Boobac Shakur sem veiddi barnaníðinga skotinn til bana
Fréttir
Í gær

Lögmaður Alexanders Mána: „Ég á bágt með að skilja hvernig einn maður á að hafa valdið 28 stungum“

Lögmaður Alexanders Mána: „Ég á bágt með að skilja hvernig einn maður á að hafa valdið 28 stungum“