fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
Fréttir

Erik Valur mætir í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti allt árið – „Þetta er daglegt líf þessara barna“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. mars 2023 16:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erik Valur Kjartansson, 12 ára, fer í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti allan ársins hring á dagdeild Landspítalans. Í lyfjagjöf í síðustu viku fylgdi Rakel Ósk ljósmyndari Erik Val eftir og myndaði ferlið. 

Móðir Erik Vals, Þórunn Eva G. Pálsdóttir deilir myndunum á síðu Mia Magic .  Gaf hún DV góðfúslegt leyfi til að segja frá færslunni og deila mynd af syninum.

Erik Valur er með lyfjabrunn sem hann fær lyfin í, en Þórunn Eva skrifaði bókina Mía fær lyfjabrunn árið 2019. Eru þau mæðgin, ásamt Jóni Sverri eldri syni Þórunnar, dugleg að veita innsýn inn í líf fjölskyldunnar til að fræða aðra.

„Þegar þú veist ekki og þekkir ekki, er ekki hægt að ætlast til að þú skiljir. Erik Valur fór í lyfjagjöf í síðastliðinni viku. Allt gekk ofsalega vel og var þetta mjög einföld og þægileg lyfjagjöf. Læknisskoðun eins og alltaf en engar blóðprufur í þetta sinn þar sem þær voru teknar skiptin á undan,“ skrifar Þórunn Eva.

Í bókinni Mía fær lyfjabrunn er útskýrt fyrir börnum (og fullorðnum) hvað lyfjabrunnur er, hvernig hann er settur upp og hvernig hann virkar. 

„Smá innsýn inn í dag á dagdeildinni, Erik Valur mætir þar á 3 vikna fresti allan ársins hring til að fá lyfin sín. Það eru ansi mörg börn sem sækja dagdeildina. Skilningurinn fyrir langveikindum er ansi lítill en líf þessara krakka er oft smá misskilið. Það er gífurlegt andlegt álag að þurfa að mæta reglulega í lyfjagjafir, bæði fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. Þetta er ansi falið álag því þetta er daglegt líf þessara barna,“ skrifar Þórunn Eva.

Hún bendir á að útivinnandi foreldrar séu fljótir að nýta veikindarétt vegna barna aðeins daga í lyfjagjöfum. Þá eru veikindadagar eftir, læknaheimsóknir og allt milli himins og jarðar sem týnist til.

„Alls ekki boðlegt og tala ég nú ekki um að þessi börn mæta ekki ein þessa daga þrátt fyrir að réttur foreldra til veikindadaga sé löngu runninn út vegna aldurs barnanna. Allt þetta og meira til veldur enn meira álagi á fjölskyldurnar. Smá innlit í það sem við tölum aldrei um. Takk Rakel fyrir að koma með okkur og takk elsku Erik Valur fyrir að hjálpa mömmu að sýna öðrum hvernig lífið raunverulega er hjá svo mörgum fjölskyldum um allan heim.“

Skoða má allar myndir úr lyfjagjöfinni hér.

Hvað er lyfjabrunnur?

Á vefsíðu Mia Magic kemur fram að það eru alltaf nokkur börn á ári sem þurfa að fá lyfjabrunn og eru ástæðurnar misjafnar. Stór hluti þessara barna eru börn sem greinst hafa með krabbamein en það eru einnig börn með hjartasjúkdóma, Cystic Fibrosis, blóðsjúkdóma, meðfædda ónæmisgalla og meltingarsjúkdóma sem þurfa að fá lyfjabrunn svo dæmi séu tekin.

Lyfjabrunnur er lítið kringlótt hylki oftast úr málmi sem komið fyrir undir húð, vanalega ofarlega á bringunni. Við hylkið er tengd örmjó slanga sem þrædd er í stóra bláæð innan á brjóstveggnum. Á hylkinu er himna úr plastefni sem hægt er að stinga í gegnum Lyfjabrunnur er svo notaður við lyfjagjafir og fleira og þá losnar sjúklingurinn við endurteknar nálarstungur í bláæð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt