fbpx
Mánudagur 20.mars 2023
Fréttir

Frosti segist hafa afhjúpað Eddu Falak – Segir hana ljúga til um starfsreynslu sína, beiti hótunum og andlegu ofbeldi

Ritstjórn DV
Föstudaginn 17. mars 2023 14:08

Frosti Logason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýjasta þætti af Harmageddon í umsjón Frosta Logasonar, sem ber yfirskriftina Edda Falak afhjúpuð, fullyrðir fjölmiðlamaðurinn að Edda hafi logið til um starfsreynslu sína í viðtölum við stærstu fjölmiðla landsins. Þá segist hann hafa heimildir fyrir því að Edda hafi beitt fólk andlegu ofbeldi og hún hafi gerst sek um lygar og þjófnað. Þessar fullyrðingar Frosta má heyra í broti af nýjasta þættinum sem birtust á Youtube-síðu efnisveitunnar Brotkast fyrir stundu. Tilefnið er, svo vísað sé í lýsingu þáttarins, að Edda hefur sagst ætla að hækka siðferðisþröskuld samfélagsins. Það telur Frosti illmögulegt í ljósi þess að blaðakonan kemur ekki hreint fram að hans sögn.

Rétt er að geta þess að Frosti og Edda hafa eldað grátt silfur saman undanfarin ár. Þannig steig fyrrverandi kærasta Frosta, Edda Pétursdóttir, fram í viðtali við hlaðvarpið Eigin konur – í umsjá Eddu Falak – og bar Frosta þungum sökum sem hann gekkst síðar við að hluta. Þá hefur Edda Falak látið þung orð falla í garð Frosta á samfélagsmiðlum og því ljóst að litlir kærleikar eru milli þeirra.

Segir Eddu hafa sagt ósatt í viðtölum

Í áðurnefndum þætti fjallar Frosti um að Edda Falak hafi í viðtölum við stærstu fjölmiðla landsins, Vísi, Morgunblaðið og RÚV, sem og á samfélagsmiðlum, sagst hafa unnið í verðbréfamiðlun hjá virtum banka, unnið í fjármáladeild hjá stóru fjármálafyrirtæki í Kaupmannahöfn. Birtir Frosti meðal annars skjáskot af einkaskilaboðum þar sem Edda er spurð út í hvaða fyrirtæki hún hafi unnið hjá og segir hún þá að um lyfjarisann Novo Nordisk sé að ræða.

Frosti bendir á að hann hefur áður rætt óljósar lýsingar Eddu varðandi starfsferil sinn og í kjölfarið hafi hann ákveðið að rannsaka málið.

„Núna er ég búinn að vinna vinnuna. Ég er búinn hringja símtölin og ég er búinn að senda póstana og ég er búinn að vera stanslaust að skoða þetta í nokkrar vikur. Ég er búinn að vera í samskiptum við danska fjármálaeftirlitið. Ég er búinn að vera í samskiptum við Novo Nordisk. Ég er búinn að vera í samskiptum við fullt af fólki, samferðamenn Eddu Falak í Kaupmannahöfn og Íslandi. Og ég er búinn að fá það algjörlega staðfest að Edda Falak hefur aldrei miðlað með verðbréf enda hefur hún aldrei haft slík réttindi,“ segir Frosti í þættinum.

„Þetta er sprengja, þetta er algjörlega ótrúlegt“

Þá segir hann að Edda hafi aldrei unnið í stórum fjárfestingabanka né virtum banka og að Edda hafi aldrei unnið í Novo Nordisk.

„Þetta er sprengja, þetta er algjörlega ótrúlegt því að hún er ekki að fullyrða þetta eftir þrjá bjóra á Kaffibarnum niðri í bæ. Hún er að segja þetta í stærstu fjölmiðlum landsins,“ segir Frosti og dregur þá ályktun, með þeim fyrirvara að hann sé ekki fagaðili, að Edda glími við einhverskonar persónuleikaraskanir.

Eins og áður segir fullyrðir Frosti að hann hafi talað við mikið af fólki og hin meinta ósannsögli um starfsreynsluna sé ekki allt.

„Það eru líka frásagnir, svakalegar frásagnir af andlegu ofbeldi, stórkostlegum brjáluðum lygum, svikum og þjófnaði sem ég hef heyrt af. Það er fólk sem þorir ekki að segja frá. Það þorir ekki að tala vegna þess að þarna eru líka hótanir. Það eru mjög alvarlegar hótanir,“ segir Frosti.

Hann segist vegna trúnaðar við viðmælendur sína ekki geta farið nákvæmlega yfir hvað honum hafi verið sagt. „En efnislega gæti það hljómað svona. Ef þú ætlar að segja sannleikann um mig, þá mun ég ljúga upp á þig. Og ég mun nota styrk minn og stöðu í samfélaginu til þess að gera út af við þig,“ segir Frosti.

Hann segir enn fremur að það sé eðlilegt að fólk sé hrætt enda fullyrðir hann að Edda hafi staðið við slíkar hótanir. Þá minnist hann sérstaklega á sjónvarpsmanninn Gísla Martein Baldursson sem Frosti fullyrðir að gaslýsi þá sem beri Eddu illa söguna á samfélagsmiðlum.

DV hefur óskað eftir viðbrögðum Eddu við fullyrðingum Frosta í þættinum.

Hér má sjá brot úr þættinum en hann er svo í fullri lengd á áskriftarsíðunni Brotkast.is:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón ósáttur við fréttastofu RÚV – Birtu aðeins 10 sekúndur af 3 mínútna málsvörn hans varðandi rafbyssumálið

Jón ósáttur við fréttastofu RÚV – Birtu aðeins 10 sekúndur af 3 mínútna málsvörn hans varðandi rafbyssumálið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gæsluvarðhald yfir skotmanninum á Dubliners framlengt

Gæsluvarðhald yfir skotmanninum á Dubliners framlengt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fréttavaktin: Leikskólavandi, líðan barna í skólum, Instagram-svindl

Fréttavaktin: Leikskólavandi, líðan barna í skólum, Instagram-svindl
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ekið á hund á Kaldárselsvegi – Margt í gangi hjá lögreglunni í dag

Ekið á hund á Kaldárselsvegi – Margt í gangi hjá lögreglunni í dag
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Meta hvort skotmaðurinn á Dubliner sé hættulegur almenningi

Meta hvort skotmaðurinn á Dubliner sé hættulegur almenningi
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ógnvænleg hækkun á afborgun húsnæðisláns – 170 þúsund króna hækkun á mánaðarlegri afborgun

Ógnvænleg hækkun á afborgun húsnæðisláns – 170 þúsund króna hækkun á mánaðarlegri afborgun