Maðurinn var ákærður fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, stuttu eftir hádegi þennan örlagaríka dag, ekið bifreið sinni án nægilegs tillits og varúðar og ófær um að stjórna ökutækinu örugglega vegna þreytu. Varð það til þess að bifreiðin fór yfir á akrein fyrir umferð á móti og lenti í árekstri við bifreið sem kom úr suðurátt.
Farþegi í þeirri bifreið, slóvensk kona á fimmtugsaldri, lést samstundis og slasaðist eiginmaður hennar, einnig slóvenskur ríkisborgari, mikið og hlaut hann meðal annars brot á hryggjarliðum og mar á kviðarhol. Annar farþegi í bifreiðinni fékk brot á hægri hnéskel og rof á milta.
Þá slösuðust tveir bandarískir ríkisborgarar sem voru í bíl ákærða, en báðir brákuðust á hryggjarlið.
Ákærði í málinu sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann væri fullur eftirsjár vegna slyssins, bæði vegna þess sem kom fyrir hans eigin fjölskyldu og fjölskyldu hinna. Hins vegar teldi hann ekki að hann hefði sýnt kæruleysi eða vanrækslu.
Hann hefði komið til landsins með fjölskyldunni tveimur dögum fyrir slysið, 15. júlí, og daginn fyrir slysið hefði verið ferðalag á þeim þar sem þau hefðu farið Gullna hringinn.
Þau hefðu verið á kaffihúsi í um einnar klukkustundar akstursfjarlægð frá áætluðum áfangastað og lagt af stað þaðan um kl. 12:30. Honum hefði liðið vel er hann hefði farið inn í bílinn, hann hefði ekki verið að aka fyrr um daginn og sofið vel um nóttina. Hann hvorki drykki áfengi né notaði eiturlyf.
Maðurinn viðurkenndi þó að hafa fundið til þreytu eftir stutta stund og tengdi hann það helst við að vegurinn hefði verið þröngur og plássið lítið, en hann hefði haldið sig innan hraðatakmarkana.
Hann hefði hugsað um að stoppa og fá konu sína til að skipta við sig en ekki fundið neinn góðan stað til að fara út af veginum. Hann hefði verið að leita eftir stað þar sem fólk gæti stöðvað til að hvíla sig en ekki fundið. Hann hefði haldið að það væri ekki öruggt að stöðva bifreiðina á vegöxlinni og að það myndi valda slysi. Eftir á hefði hann velt því fyrir sér hvort hann hefði frekar átt að aka út í skurð.
Einnig hefði hann velt því fyrir sér hvort það að hér væri birta allan sólarhringinn hefði getað haft áhrif á hann og ýtt undir þreytuna. Aðspurður um framburð eiginkonu hans á vettvangi um að hún héldi að hann hefði sofnað kvaðst hann telja að það væri rétt, hann hefði sofnað stuttlega.
Kvaðst hann ekki muna eftir sjálfum árekstrinum, hann muni síðast eftir sér um það bil 30 mínútum frá áfanga staðnum og þannig velti hann því fyrir sér hvort rökhugsun hans hafi ekki verið upp á sitt besta þarna í 15–20 mínútur fyrir slysið. Kvaðst honum þykja þetta mjög leitt en hann hafi ekki brotið lög; ekki verið að aka of hratt eða að reyna framúrakstur.
Í niðurstöðu dómara kemur fram að slysið hefði mátt rekja til þreytu ökumannsins. Við mat á refsingu bæri að líta til þess að um gáleysisbrot væri að ræða og afleiðingar slyssins ótvírætt lagst afar þungt á ákærða. Þótti hæfileg refsing 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, og sex mánaða ökuleyfissvipting.
Eiginmaður konunnar sem lést í slysinu krafðist 10 milljóna króna í miskabætur en ein milljón króna þótti hæfilegt að mati dómara. Þá var ákærða gert að greiða tveimur öðrum sem slösuðust 250 þúsund krónur.