Ef marka má sjálfvirka spá Veðurstofunnar fyrir aðfangadag verður frost á nær öllu landinu á aðfangadag. Á höfuðborgarsvæðinu gæti frostið farið niður í 9 gráður. Vindur verður tiltölulega hægur og bjart í veðri.
Svipað verður uppi á teningnum norðan heiða en á Akureyri er til dæmis gert ráð fyrir sjö stiga frosti að morgni aðfangadags en hlýnandi veðri þegar líður á daginn. Þar má gera ráð fyrir snjókomu.
Hér að neðan gefur að líta veðurhorfur á landinu næstu daga eins og þær birtast á vef Veðurstofu Íslands:
Á föstudag (vetrarsólstöður):
Norðaustlæg eða breytileg átt, víða 5-13 m/s og snjókoma með köflum, en lengst af þurrt og bjart sunnan heiða. Frost 3 til 17 stig, kaldast inn til landsins.
Á laugardag (Þorláksmessa):
Austan 8-15 og víða líkur á éljum, en hægari norðaustanlands. Dregur úr frosti.
Á sunnudag (aðfangadagur jóla):
Norðaustan 10-18, en hægari á Austurlandi. Él um landið norðanvert, annars þurrt að mestu. Frost 0 til 8 stig. Dregur úr vindi síðdegis.
Á mánudag (jóladagur):
Breytileg átt og él, en þurrt að kalla um landið vestanvert. Herðir á frosti.
Á þriðjudag (annar í jólum):
Suðlæg eða breytileg átt og snjókoma með köflum. Frost 0 til 7 stig.
Á miðvikudag:
Norðaustlæg átt og dálítil él, en bjartviðri um landið suðvestanvert. Kólnar í veðri.