Þetta kom kemur fram í viðtali við hann sem birtist í rússnesku sjónvarpi á sunnudaginn.
Finnland gekk í NATO í apríl á þessu ári. Landið á 1.340 km löng landamæri að Rússlandi.
„Þau (Vesturlönd, innsk. blaðamanns) drógu Finnland inn í NATO. Áttum við í einhverjum deilum við þá? Allar deilur um landsvæði, þar á meðal þau sem við áttum í um miðja tuttugustu öldina, höfðu verið leyst. Það voru engin vandamál en nú koma þau upp því við ætlum að stofna nýtt hernaðarumdæmi og hafa ákveðinn fjölda hersveita þar,“ sagði Pútín.
Finnar lokuðu landamærum sínum að Rússlandi í síðustu viku á nýjan leik en þeir telja að Rússar hafi reynt að búa til „flóttamannavanda“ á landamærunum með því að flytja fjölda förufólks að þeim og nánast ýta þeim yfir landamærin til Finnlands.
Pútín nefndi ekki í viðtalinu eitt og annað sem tengist NATO. Til dæmis að Rússar hafa flutt um 80% hersveita sinna frá norsku landamærunum en Norðmenn eru aðilar að NATO. Breska varnarmálaráðuneytið segir að Rússar hafi líklega flutt loftvarnarkerfi frá Kaliningrad, sem er umkringt af NATO-ríkjum, til að nota annars staðar í tengslum við stríðið í Úkraínu.