fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Greta opnaði sig um sára reynslu í fyrstu ræðu sinni á Alþingi – „Þetta allt saman markaði hann og mig“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 6. desember 2023 14:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greta Ósk Óskarsdóttir, varaþingmaður Pírata, tók sæti á Alþingi í vikunni sem varamaður Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Greta er bókmenntafræðingur og bætiefnaráðgjafi og flutti hún sína fyrstu ræðu á Alþingi í gær undir liðnum störf þingsins.

Greta þakkaði fyrir móttökurnar sem hún hefur fengið og tók fram að það væri sannur heiður að standa uppi í pontu í þingsal.

„Ég hef oft horft inn að utan og hlakkað til að fá að taka þátt og ekki aðeins leyfist mér það í dag heldur er beinlínis ætlast til þess af mér og það er tækifæri sem ég er þakklát fyrir. En af hverju ætli ég sé hér,“ spurði Greta.

Ein fárra Pírata sem ekki elskar forritun

Hún segir að þegar hún var lítil stúlka hafi hún verið sérstaklega hrifin af kerfum og spáð mikið í það hvernig hlutirnir virkuðu.

„Ég sá fyrir mér heilu virknimódelin í huganum á mér og hugsaði að það hlyti að liggja fyrir mér að verða kerfisfræðingur. Mér leist bara nokkuð vel á þetta plan þar til ég komst að því að kerfisfræðingar væru fólk sem vinnur við tölvur, eins og frændi minn, en það leist mér ekkert á svo að ég varð eiginlega alveg afhuga því. Ég er því ein fárra Pírata sem ekki elskar forritun, en það má nú segja að við í Pírötum séum flest góð í kerfum en bara sum góð í tölvum.“

Missti nýfæddan son sinn

Greta opnaði sig svo um erfiða persónulega reynslu sem mótaði hana að töluverðu leyti.

„Þegar ég var 25 ára þá gekk ég með tvíbura. Þeir fæddust allt of mikið fyrir tímann, eftir fimm og hálfan mánuð af meðgöngu, og fæddust á mörkum þess að vera lífvænlegir. Annar sonur minn lifði í sólarhring og hinn sonur minn barðist fyrir lífi sínu í mánuð og ég missti hann oft næstum frá mér. Hann komst úr lífshættu en þurfti að vera þrjá mánuði til viðbótar á vökudeild,“ sagði Greta.

„Þetta allt saman markaði hann og mig, hann er með ör og afleiðingar og ég með hausinn fullan af hugsunum. Í dag er þessi sonur minn glæsilegur ungur maður sem ég lít upp til á alla vegu og líka bókstaflega því að hann er orðinn hávaxnari en ég. Svo missti ég mömmu mína úr óhugnanlegum veikindum fjórum árum síðar, eina fínustu mömmu sem hægt er að óska sér. Þegar sorgin sjatnaði aðeins fór hausinn minn af stað: Hvað hafði farið úrskeiðis? Hvað hefði verið hægt að laga og hvað er hægt að laga?“

Greta segist hafa fundið fullt af hlutum sem höfðu haft áhrif og hægt væri að laga.

„Suma hlutina hafði ég gert vitlaust sjálf en ég fann líka alls konar í kerfunum okkar sem hafði áhrif og hægt væri að laga. Þess vegna er ég hér, því að mig langar að laga kerfin og skapa velferð og vellíðan, en einnig til að takast á því að það finnst mér líka dálítið gaman. Ég þakka því bara kærlega fyrir mig,“ sagði Greta og mátti heyra kallað „heyr, heyr“ úr þingsal eftir ræðu hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Brynjar Karl geldur varhug við þingsetu Hannesar – „Rifjum upp nú geðveikasta póst allra tíma“

Brynjar Karl geldur varhug við þingsetu Hannesar – „Rifjum upp nú geðveikasta póst allra tíma“
Fréttir
Í gær

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næstdýrasta bensínið á Íslandi – Bara Hong Kong slær okkur við

Næstdýrasta bensínið á Íslandi – Bara Hong Kong slær okkur við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eldri maður fannst í angist úti á götu – „Ef þeir myndu velja konur á þeirra aldri væru þeir ólíklegri til þess að verða plataðir“

Eldri maður fannst í angist úti á götu – „Ef þeir myndu velja konur á þeirra aldri væru þeir ólíklegri til þess að verða plataðir“