fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Stóra kókaínmálið: Páll timbursali viðurkenndi að hann hefði vitað af kókaíni í timbursendingunni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 20. janúar 2023 17:34

Frá aðalmeðferð Stóra kókaínmálsins í Héraðdsómi Reykjavíkur. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Jónsson, einn fjögurra sakborninga í stóra kókaínmálinu, viðurkenndi í lögregluyfirheyrslu að hann hefði vitað að kókaín væri í sendingu af timburstaurum sem flutt var í gegnum fyrirtæki hans, Hús og harðviður, til Íslands frá Brasilíu, með viðkomu í Hollandi, síðasta sumar.

Vitnaleiðslur í þessu umfangsmikla máli hófust í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn fimmtudag (í gær) en dómari lagði blátt bann á fjölmiðla um að greina frá efni vitnaleiðslna fyrr en þeim væri lokið, en það verður í fyrsta lagi í næstu viku.

Hins vegar birti Landsréttur í dag gæsluvarðhaldsúrskurð sinn í málinu þar sem gæsluvarðhaldsúrskurður Héraðsdóms yfir Páli er staðfestur. Hann hefur nú setið í gæsluvarðhaldi í um hálft ár, þar af lengstum í einangrun. Páll er á 68. aldursári en aðrir sakborningar í málinu eru miklu yngri, um og undir þrítugu. Þeir eru Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson.

Sem fyrr segir játaði Páll aðkomu sína fyrir lögreglu en varð nokkuð missaga. Um þetta segir í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms:

„Tekin var skýrsla af ákærða 5. ágúst sl. Þar skýrði hann frá aðkomu sinni að brotinu, hann hafi vitað að kókaín væri í sendingunni sem flutt var inn í gegnum fyrirtæki hans, en hann hafi ekki vitað magnið. Kvaðst hann hafa átt að fá 30 milljónir fyrir sitt hlutverk í innflutningnum. Aftur var tekin skýrsla af kærða 9. og 15. ágúst sl. Þá dró hann úr fyrri framburði sínum um að hann hafi átt að fá greitt fyrir og óljóst hve há greiðslan yrði.“

Einnig segir að lögregla hafi fylgst með Páli og samverkamanni hans fjarlægja timbrið, sem innihélt efnin, úr gámi. Gerðist það 4. ágúst en þá voru mennirnir handteknir.

Um er að ræða rétt tæplega 100 kíkó af kókaíni sem gerir þetta að stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar. Söluverðmæti efnanna á Íslandi er um tveir milljarðar króna. Þó er það svo að kókaínið rataði í raun aldrei til landsins því er sendingin hafði viðkomu í Hollandi skiptu lögreglumenn út efnunum í trjádrumbum Páls fyrir gerviefni.

Valdi hneykslun og særi réttarvitund

Í úrskurðinum er Páll úrskurðaður í gæsluvarðhald til 13. febrúar. Hann er fjölskyldumaður, sem eins og fyrr segir, er að nálgast sjötugt. Hann er með lítinn eða engan sakaferil að baki en héraðssaksóknari heldur fram þeim lagarökum að ef hann gengi laus áður en réttarhöldum lýkur myndi það valda hneysklun í samfélaginu og særa réttarvitund almennings, þar sem brotið sem hann er ákærður fyrir er svo alvarlegt:

„Að mati héraðssaksóknara er ákærði undir sterkum grun um skipulagða brotastarfsemi, peningaþvætti og tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots, með því að hafa ásamt ætluðum samverkamönnum sínum staðið að innflutningi á 99,25 kg af kókaíni og framið þar brot sem varðað getur við 173. gr. a., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framangreint brot getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Brotið þykir mjög alvarlegt og um mikið magn hættulegra fíkniefna er að ræða. Með tilliti til almannahagsmuna þykir nauðsynlegt að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar en telja verður að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og ákærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings.“

Höfuðpaurarnir í málinu virðast sleppa

Ráða má af ákæru málsins, sem DV hefur undir höndum og hefur fjallað um, að höfuðpaurarnir í þessu stóra smyglmáli hafi sloppið undan lögreglu. Kemur þar fram að mennirnir fjórir hafi staðið að innflutningi efnanna í félagi við óþekkta aðila. Einnig kemur fram að óþekktir aðilar hafi greitt háar fjárhæðir inn á bankareikninga mannanna en þeir eru auk hlutdeildar í fíkniefnasmygli sakaðir um peningaþvætti.

Aðalmeðferð í málinu heldur áfram í næstu viku en eins og fyrr segir er í gildi fréttabann á efni vitnaleiðslna þar til þeim er lokið. Það ætti að geta orðið fyrir lok næstu viku.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala