Þetta er langt frá því að vera óskastaðan fyrir Vladímír Pútín, Rússlandsforseta. Hann hefur nú tapað Eystrasalti.
Þetta sagði Charlotte Flindt Pedersen, sérfræðingur í rússneskum málefnum, í samtali við Danska ríkisútvarpið. „Þetta þýðir að Rússar hafa alls ekki þá möguleika í Eystrasalti sem þeir höfðu áður,“ sagði hún.
Steen Kjærgaard, hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, sagði að þetta hljóti að vera „versta martröð“ Pútíns. „Hernaðarlega séð er þetta risastórt skref fyrir NATO,“ sagði hann.
Það er vandamál fyrir Rússa, bæði í lofti og á sjó, að Svíar verða nú aðilar að NATO að mati Kjærgaard. Eyjan Gotland, sem er í miðju Eystrasalti, skptir þar miklu máli að hans sögn. Eyjan tilheyrir Svíþjóð og er staðsett á gríðarlega mikilvægu hernaðarlegu svæði.
„Ef maður setur loftvarnarkerfi upp á Gotlandi getur maður lokað fyrir flugumferð yfir Eystrasalti,“ sagði hann.
Pedersen benti á að Eystrasalt hafi í gegnum tíðina haft mikið vægi fyrir Rússland. Til að skilja þetta mikilvægi þurfi að horfa aftur til tíma Péturs Mikla, sem kom St Pétursborg á laggirnar. Hann var keisari Rússlands í upphafi átjándu aldar. Eitt mikilvægasta verkefni hans var að tryggja Rússum aðgang að Eystrasalti og það tókst honum.
Pútín hefur gefið í skyn að hann sé rússneskur leiðtogi af sömu stærðargráðu og Pétur Mikli og í því ljósi hlýtur missir Eystrasaltsins að vera sársaukafullur sagði Pedersen.